Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, skrifar:
Þær eru heldur nöturlegar fréttirnar sem berast nú af eftirmálum Geirfinnsmálsins. Ekki að það hafi verið úr háum söðli að falla, en þó stóðu vonir til að það yrði þó lagað sem hægt er að laga öllum þessum árum og áratugum síðar.En nei.Ríkið krefst sýknu af öllum bótakröfum Guðjóns Skarphéðinssonar. Ég hvet áhugasama – ég hvet alla – til að lesa greinargerð ríkisins um málið. Það er eðlilegt að takast á um upphæð bóta, en að fara alla leið ofan í skotgrafirnar enn og aftur og hafna öllum kröfum er illskiljanlegt.Að sama skapi á ég erfitt með að skilja að nú, þegar viðurkennt er að meðferðin á þeim grunuðu í málinu leiddi til falskra játninga, skuli enn tekist á um hvort slíkt hafi að sama skapi leitt til falskra ásakana á hendur enn öðru saklausu fólki. Hvernig getur þótt eðlilegt að meinsærisdómur Erlu Bolladóttur í sama máli standi óhaggaður við þessar aðstæður og komi í veg fyrir að hún fái sömu lúkningu og aðrir sakborningar í þessu ömurlega máli? Ég vil alls ekki að gera lítið úr þeim skaða sem framburður hennar olli saklausu fólki, en af hverju þessi harka þegar búið er að rannsaka og viðurkenna hvaða áhrif aðstæður höfðu?