Ríkisvaldið fer ekki eftir gildandi lögum
„Af hverju er ekki verið að fara eftir lögum um almannatryggingar? Þar stendur mjög skýrt að það eigi að hækka lífeyri almannatrygginga miðað við verðbólgu eða, ef launaþróun er hærri, miðað við launaþróun. Hérna erum við að glíma við hins vegar þann sannleika að sú þróun hefur gegnumgangandi verið lægri en launaþróun og á undanförnum rúmum tuttugu árum munar þar 56 prósent, þ.e. ef lífeyrir almannatrygginga hefði fylgt launaþróun þá væri núverandi tala 56 prósent hærri, sem útskýrir þessar tölur sem var farið yfir í óundirbúnum fyrirspurnum áðan. Þetta er nákvæmlega talan sem vantar,“ sagði Björn Leví Gunnarsson þegar hann lagði fyrirspurnir fyrir Ásmund Einar Daðason félagsmálaráðherra.
Björn Leví hélt áfram:
„Á þessu kjörtímabili er þessi skerðing, þessi munur, 5,7 prósent. Það þýðir bókstaflega að ein launahækkun eins árs hverfur fyrir þennan hóp. Allir aðrir fá launahækkanir á hverju ári miðað við lífskjarasamninga o.s.frv., nema þeir sem eru með lífeyri almannatrygginga. Þeir þurfa að sleppa einu ári á hverju kjörtímabili. Það er staðan. Þannig að ég velti fyrir mér: Hvað vill ríkisstjórnin gera í þessu? Í lok kjörtímabilsins er enginn árangur í nákvæmlega þessu og við stöndum uppi með enn meiri kjaragliðnun, þetta er alltaf það sama. Hvað á að gera?“
Ekki er hægt að skilja ráðherrann á annan veg en þann að ef öryrkjum fjölgar skerðist örorkulífeyrir til annarra.
Lesum: „Grundvöllurinn undir því að geta aukið í til málaflokksins er síðan að við náum að draga úr nýgengi örorku og það er að takast. Fleira fólk er í endurhæfingu nú en verið hefur og það hefur dregið aðeins úr aukningu í örorkulífeyri. Það er það sem við viljum. Við viljum aðstoða fólk við að halda sér á vinnumarkaði. Það er forsendan fyrir því að við getum aukið í til málaflokksins en það er vilji núverandi ríkisstjórnar að gera það.“
Þetta er magnað system. Björn Leví er þessa sinnis:
„Þessi hefð er nefnilega rosalega skrýtin. Á meðan ekki tekst að fara í kerfisbreytingar erum við viljandi að láta lífeyri almannatrygginga rýrna. Það hefur gerst ár eftir ár undanfarin tuttugu ár. Ef lífeyririnn væri samkvæmt lögum um almannatryggingar, myndi fylgja a.m.k. launaþróun, þá værum við ekki að tala um þessa peninga sem vantar, þeir væru nú þegar í kerfinu og framfærslan væri sú sem var verið að kalla eftir.“
Ásmundur Einar sagði að meira rynni til „málaflokksins“ en áður. Það breytir því ekki að öryrkja sitja eftir.