„Það er líka athugunarefni að með frumvarpinu er verið að ríkisvæða alla fjölmiðla á Íslandi. Það er verið að gera alla fjölmiðla, þ.e. þá sem njóta styrkja samkvæmt frumvarpinu, háða ríkinu og stjórnvöldum hverju sinni. Mér hefur þótt það verulega alvarleg þróun og ég hef verið áhyggjufullur yfir henni,“ sagði Þorsteinn Sæmundsson Miðflokki á Alþingi.
„Það virðist vera siður hjá þessari ríkisstjórn að þegar einfaldir kostir bjóðast velja menn alltaf þyngri og flóknari kostinn,“ sagði hann.
„Auðvitað er fær auðveldari leið til að jafna þann mun sem er á íslenskum fjölmiðlamarkaði. Við Miðflokksmenn höfum talað fyrir henni mjög oft. Það er sú leið, eins og segir í tillögu okkar, að hver og einn Íslendingur sem borgar útvarpsgjald geti ánafnað þeim fjölmiðli sem hann kærir sig um einum þriðja af því gjaldi. Þetta er þekkt á öðrum vígstöðvum, frú forseti. Þeir sem ekki vilja greiða sóknargjald til þjóðkirkjunnar geta ánafnað sóknargjaldi sínu annað,“ sagði Þorsteinn.