Marinó G. Njálsson skrifar:
Stjórnmál
Stundum verður maður svo gáttaður á illkvittni stjórnvalda, að manni fallast algjörlega hendur. Þess vegna hef ég ekki fjallað um málið fyrr en núna.
Um daginn var sett í dreifingu og til umsagnar drög að frumvarpi vegna endurskoðunar örorkulífeyriskerfisins. Í drögunum voru fundin hin breiðu bök samfélagsins. Fólk sem margt hvert er búið að vera öryrkja allt sitt líf, en að minnsta kosti frá 24 ára aldri.
Þarna er ég að tala um aldursviðbót örorkulífeyris. Í dag er hún jafn há örorkulífeyrinum, þ.e. 63.020 kr. á mánuði, en lagt er til í drögunum að hún lækki í 30.000 kr. á mánuði. Meðan aldursviðbót þess sem fær sitt fyrsta örorkumat 44 ára, á að lækka um 9.453 kr. á mánuði, þ.e. falla niður, mun aldursviðbót þess, sem er búinn að vera öryrki frá því að viðkomandi hefði getað byrjað sína atvinnuþátttöku um tvítugt, að lækka um 33.020 kr.
Ég velti fyrir mér hverjum datt í hug þetta „réttlæti“.
Ljóst er af þessu, að verið er að fella hluta aldursviðbótarinnar inn í það sem í drögunum er kallað fullur lífeyrir. Með því á sér stað tilfærsla frá þeim sem lengst hafa búið við örorku og skert lífsgæði til þeirra sem eru jafnvel að fá greiningu upp á 75% örorku og þaðan af meira á sjötugsaldri. Færa á réttindi til fólks, sem hefur verið lengi á vinnumarkaði og hefur líklega aflað sér réttinda hjá sínum lífeyrissjóði, á kostnað þeirra sem engin réttindi eiga í lífeyrissjóði og hafa því eingöngu úr greiðslum frá TR að moða.
Þessi breyting er býsna lúmsk. Segjum sem svo, að einstaklingur fái rétt á fullum lífeyri um 60 ára aldur og eigi réttindi í sínum lífeyrissjóði upp á fjárhæð sem er vel yfir frítekjumörkum, þá mun hin fulla lífeyrisgreiðsla skerðast. Í reynd mun þess vegna tilfærslan ekki renna til lífeyrisþegans, heldur veldur skerðingin sparnaði hjá ríkissjóði. Sá sem fæddist öryrki og hefur getað notað aldursviðbót upp á 63.020 kr. til að greiða fyrir ýmislegt sem fylgir örorku sinni (og verið viss um að sá kostnaður er ansi oft í réttu hlutfalli við hve lengi viðkomandi hefur búið við skert lífsgæði), þarf núna að sætta sig við 30.000 kr. Eins og eitthvað á Íslandi lækki í verði með tímanum. Þetta er sá hópur sem ólíklegastur er til að hafa aðrar tekjur sem skertu „fullan lífeyri“, því hann er ólíklegastur til að vera á vinnumarkaði.
Ég veit ekki hve stór hópur þetta er, sem er að fá óskerta aldursviðbót eða munu fá hina nýju fjárhæð, þó hún skerðist. Hitt veit ég, að skerðingin, þ.e. frá 63.020 kr. niður í 30.000 kr. á mánuði er 7,3% af greiðslunni til þess sem í dag fær óskerta aldursviðbót (þá miða ég við fullan örorkulífeyri plús aldursviðbót eftir fyrirhugaðar breytingar). Þetta er fjárhæð sem fólk munar um, enda gerir þetta um 400.000 kr. fyrir skatta á ári. Það slagar í húsnæðiskostnað í einn mánuð.
Ég er viss um, að það eru til styrkari og breiðari bök í þjóðfélaginu, sem geta tekið á sig þessar 33.020 kr. á mánuði (plús verðbólguhækkun til áramóta) og þar með hlíft þeim sem líklega engan rétt eiga í lífeyrissjóðum, geta hvergi fengið vinnu vegna þess að þjóðfélagið gerir ekki ráð fyrir störfum handa þeim og hafa aldrei hækkað um flokk í „launakerfi“ almannatrygginga, enda gerir það ekki ráð fyrir greiðslur hækki vegna aukinnar reynslu, menntunar í skóla lífsins eða aldurs. Nei, innan „launakerfis“ almannatrygginga kemst enginn til metorða, verður verkstjóri, millistjórnandi eða forstjóri. Það er bara einn taxti, hann er sá lægsti sem boðið er upp á í þjóðfélaginu og njörvar þann í fátækragildru sem einu sinni lendir á honum.
Ísland á enn langt í að gera vel við sína minnstu bræður og systur og þetta frumvarp færir málin frekar lítið fram á við, ef nokkuð. Að það hafi tekið á annan áratug að semja það, sýnir að einhverjir eru með slæma samvisku yfir innihaldinu.
Greinina birti Marinó fyrst á eigin Facebooksíðu. Greinin er birt hér með leyfi höfundar.