„Það hefur ekki staðið í ríkisstjórnum að kalla saman þing til að grípa inn í lögvarinn réttindi launafólks í kjarabaráttu. Jafnvel þegar þing er ekki að störfum er talið að neyðin sé slík að setja verði bráðabirgðalög á baráttuna. Réttlætingin að sjálfsögðu sú að það varði við almannahagsmuni að launafólk haldi baráttu sinni til streitu,“ skrifar Inga Sæland, formaður Flokks fólksins.
„En nú, í miðjum heimsfaraldri þar sem líf og heilsa landsmanna er undir þá er allt í fína lagi að ræða málin í rólegheitunum.
Fólk frá eldrauðum svæðum fær að flæða inn í landið, sýnandi vottorð sem oft eru algjörlega marklaus enda sum hver keypt á netinu fyrir 25 dollara stykkið.
Ég bara spyr, hvernig í veröldinni dettur nokkrum heilvita einstaklingi hvað þá heilli ríkisstjórn það í hug að tefla þjóð sinni í þvílíka hættu? Þetta er með slíkum ólíkindum að jafnvel ég er að verða orðlaus og þá er nú mikið sagt.
Ég vil að þingið komi saman og það ekki seinna en strax og skjóti haldbærri lagastoð undir allar þær ákvarðanir sem sóttvarnarlæknir telur nauðsynlegar til að verja okkur gegn frekari útbreiðslu þessa andstyggðar heimsfaraldurs. það hlýtur að vera grundvallaratriði og markmið með embætti sóttvarnarlæknis að hann geti unnið vinnuna sína án þess að löggjafinn leggi stein í götu hans.“