Fréttir

Ríkisstjórnin stendur vörð um sérhagsmuni ekki almannahagsmuni

By Miðjan

April 19, 2023

Miðstjórn Alþýðusambandsins lýsir yfir miklum vonbrigðum með það úrræða- og aðgerðaleysi sem birtist í framlagðri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Verðbólga mælist óásættanlega há um þessar mundir og hefur hækkun verðlags, aukin vaxtabyrði og vaxandi húsnæðiskostnaður þrengt verulega að afkomu heimilanna. Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er ekki að finna neinar raunverulegar aðgerðir sem stuðla að lækkun verðbólgu á þessu ári. Í áætluninni er heldur ekki að finna nein áform um að styðja við afkomu heimilanna eða taka á þeim bráðavanda sem ríkir á húsnæðismarkaði eða í heilbrigðiskerfi.

Áætlunin afhjúpar klassíska veikleika í opinberum fjármálum. Undanfarin ár hefur verið þrengt að tekjum ríkisins og útgjaldavöxtur er umfram áætlanir. Afkoman er því veik ef tekið er tillit til stöðu hagsveiflunnar. Svo óábyrg áætlun skapar hættu á að þrengja muni hratt að rekstri hins opinbera þegar dregur úr þenslu í hagkerfinu. Enn og aftur gæti þurft að skera niður í innviðum samfélagsins til að borga fyrir skattalækkanir hinna auðugustu.

Stjórnvöld hafa farið þá leið að afla tekna með krónutölugjöldum og auknum álögum á bifreiðaeigendur. Þessar aðgerðir hafa magnað upp verðbólgu og dregið úr kaupmætti heimila. Í fjármálaáætlun er boðað áframhald á þessari stefnu þar sem stærsta aðgerð tekjuöflunar er aukin skattlagning á ökutæki heimila. Ekki er að finna neinar útfærðar tillögur um skattahækkanir á metafkomu útflutningsgreina. Alþýðusambandið mótmælir slíkri forgangsröðun sem eykur byrðar heimila á meðan breiðustu bökum samfélagsins er hlíft.  Ríkisstjórnin velur að standa vörð um sérhagsmuni frekar en almannahagsmuni.

Miðstjórn Alþýðusambandsins kallar eftir raunverulegum aðgerðum. Aðgerðum sem draga úr verðbólgu, mæta versnandi afkomu heimilanna og bráðum húsnæðisvanda. Óbreytt forgangsröðun og sinnuleysi gagnvart afkomuvanda fólksins í landinu er ekki lengur valkostur.