Fréttir

Ríkisstjórnin lifir í sýndarveruleika

By Gunnar Smári Egilsson

March 16, 2021

Gunnar Smári skrifar:

Op­in­ber fjár­fest­ing var ein­ung­is 3,5% af vergri lands­fram­leiðslu í fyrra, en hún hef­ur að meðaltali verið um 3,9% af VLF frá ár­inu 2001. Þessi niðurstaða kem­ur á óvart í ljósi bæði yf­ir­lýs­inga stjórn­valda og samþykktra heim­ilda, seg­ir hér í Hagsjá Landsbankans.

Þetta ætti hins vegar ekki að koma neinum á óvart. Það hefur margsinnis komið fram að mikill munur er á yfirlýsingum ráðherranna á fundum og svo því sem raunverulega verður. Við höfum fengið fundi um heimsmet í efnahagsaðgerðum sem síðan hafa orðið lítið meira en lögbundnar atvinnuleysisbætur. Við höfum fengið fundi um stórkostlegt átak í fjárfestingum en svo kemur í ljós að ríkisstjórnin er að draga saman seglin, akkúrat þegar mikið liggur við að hún dragi upp öll segl.

Það er sjálfstæður vandi gagnvart þessum efnahagssamdrætti að ríkisstjórnin lifir í sýndarveruleika. Markmið ráðherranna er að slá í gegn á kynningarfundi, ekki svo mjög að aðgerðirnar sem eru kynntar gagnist einhverjum. Kannski vita ráðherrarnir að stærstu breyturnar eru handan áhrifa þeirra; hversu hratt landsmenn kveða niður smit og hversu hratt erlend fyrirtæki framleiða bóluefni. Markmið ráðherranna er að sitja bylgju velgengni þessa og sækja sigur í kosningum; hvað þeir gera á leiðinni skiptir þá minna máli.