„Hvernig stendur á því að ríkisstjórnin var ekki tilbúin að bæta í skilmálana að það sé óumdeilt að eigendur Icelandair, hvort sem það eru núverandi eða verðandi eigendur eftir útboðið, megi ekki rekja rætur sínar til skattaskjóla? Þetta skiptir máli. Munið Panama-skjölin: Íslendingar áttu langflesta fulltrúa miðað við höfðatölu. Og munið þið hvað var í Panama-skjölunum? Þetta var ein lögmannsstofa í einu landi en þetta voru mörg hundruð dæmi. Þetta er því ekki eitthvert jaðardúllulegt mál. Þetta skiptir máli,“ sagði Ágúst Ólafur Ágústsson, þegar ríkisábyrgðin handa Icelandair var á dagskrá.
„Auðvitað eiga fyrirtæki sem leita til okkar, til ríkisins, eða njóta góðs af því með einum og öðrum hætti, ekki að vera með eigendur sem eru skráðir í skattaskjólum. En þetta fékkst ekki í gegn þrátt fyrir að ég hafi ítrekað talað um þetta á vettvangi nefndarinnar. Eitt af skilyrðunum hér er að höfuðstöðvar móðurfélagsins verði á Íslandi. Gott og vel. Af hverju ekki að bæta því við að það komi engan veginn til greina að eigendur að þessu fyrirtæki hafi eignarhald sitt í skattaskjólum. Ég veit að eftirlitið er erfitt o.s.frv., ég veit að vilji menn brjóta reglurnar þá geta þeir oft gert það. En þetta væri pólitísk yfirlýsing sem skiptir máli. ASÍ kallaði eftir þessu í sinni umsögn.“