- Advertisement -

Ríkisstjórnin hunsar vilja Alþingis

Andlegt og líkamlegt ofbeldi hefur verið hlutskipti fatlaðs fólks í aldanna rás og er því miður enn.

Guðmundur Ingi Kristinsson:
Fatlað fólk fyrst, svo allt hitt.

„Hvar er lögfesting á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og viðauka hans? Hvers vegna er ekki búið að lögfesta hann eins og átti að vera búið að gera fyrir áramót? Í samningnum og viðauka hans er verið að tryggja eftirlitsskyldu með því að staðið sé við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Ríkisstjórnin á nefnilega að vera búin að leggja fram frumvarp og lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðs fólks. Hvers vegna dregur ríkisstjórn Vinstri grænna, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks lappirnar í þessu máli? Hvað er í gangi hjá ríkisstjórninni? Lögfestingin var samþykkt hér af öllum, úr öllum flokkum, sem er risaskref fyrir fatlað fólk,“ sagði Guðmundur Ingi Kristinsson á Alþingi.

„Ég skil ekki hvers vegna ríkisstjórnin hysjar ekki upp um sig réttlætið og finnur samviskuna með því að bæta úr þessu og stórbæta réttindastöðu fatlaðs fólks á Íslandi eins og henni ber. Andlegt og líkamlegt ofbeldi hefur verið hlutskipti fatlaðs fólks í aldanna rás og er því miður enn. Þá er óþolandi hið fjárhagslega ofbeldi sem viðgengst hefur ár eftir ár, ríkisstjórn eftir ríkisstjórn, gagnvart fötluðu fólki. Í því samhengi geri ég einnig þá kröfu að hætt verði ómannúðlegri skerðingu á skerðingu ofan á kjörum fatlaðs fólks, sem veldur því að stór hópur þess á ekki lengur mat á diskinn sinn nema í mesta lagi fyrsta dag mánaðar. Það er kominn tími til hér á Alþingi að ríkisstjórnin sýni fötluðu fólki virðingu og lögfesti samning Sameinuðu þjóðanna og viðauka hans og það strax. Sýnum samstöðu á Alþingi og stöðvum það að fatlað fólk sé einhvers konar afgangsstærð sem fái bara mola af borði ríkisins, ef einhverjir eru. Sjáum til þess í eitt skipti fyrir öll að lögleg réttindi þeirra til mannsæmandi lífs séu virt. Flokkur fólksins segir: Fatlað fólk fyrst, svo allt hitt.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: