Deilt er á Alþingi um hvort beri að ræða fyrst brýnt mál um öryrkja eða endurunna fjármálaáætlun Bjarna Benediktssonar. Bjarna og hans fólki er mikið í mun að hans mál komi á undan. Við þeim vilja er sterk andstaða.
„Við erum bara að biðja um að fá að tala á undan um málefni öryrkja. Þarna er verið að gefa öryrkjum smáafgang, afgang af 4 milljörðum sem voru komnir í 2,9. Ég held að við þurfum að drífa í því áður en þetta hverfur. Kannski er það þess vegna sem fjármálastefnan er á undan, af því að það er eitthvað í henni sem á að kroppa í þá litlu aura sem þarna eru. Ég vona ekki. Ég vona heitt og innilega að við leyfum þessu máli að komast á dagskrá vegna þess að það skiptir máli að það klárist núna á vorþingi, ekki í haust. Það er búið að draga og draga öryrkjanna á asnaeyrum, búið að lofa þeim að þetta hverfi algjörlega, króna á móti krónu, en það stendur ekki. Það væri sjálfsagt að leyfa málinu að koma inn í þingið sem fyrst þannig að við getum afgreitt það í hvelli,“ sagði Guðmundur Ingi Kristinsson Flokki fólksins.