Alþingi
„Klifaðu á lyginni nógu oft og áður en varir er hún orðin að sannleika. Hver þekkir ekki möntruna um að hér drjúpi smjör af hverju strái, hér hafi kaupmáttur aldrei verið meiri, hér séu skuldir heimilanna í algeru lágmarki? Hér hafa allir það svo rosalega gott,“ sagði Inga Sæland.
Ég ætla að leyfa mér að efa það að það sé hægt að ljúga þessu í þá tugi þúsunda Íslendinga sem hokra hér hvern einasta dag og ná ekki endum saman. Ég nefndi í eldhúsdagsræðunni minni í fyrrakvöld dæmið um ungu konuna sem var að leita aðstoðar á samfélagsmiðlum, einstæð með börnin sín tvö, og var að velta því fyrir sér hvort hún gæti fengið hugmyndir frá einhverjum í svipuðum sporum sem væri að glíma við það að eiga 5.000 kr. á viku til að gefa börnunum sínum að borða. Hún hefur kannski verið að reyna að gefa þeim eitthvað annað en núðlur, Cheerios og hrísgrjón, Cheerios með vatni jafnvel og hafragraut með vatni jafnvel ef vel áraði,“ sagði Inga og hélt áfram að gagnrýna ríkisstjórnina.
„Við skulum gera okkur grein fyrir því að þessi ríkisstjórn, sem heldur áfram að níðast á þegnunum hvern einasta dag og tekur í rauninni ekki utan um neitt nema þá sem þurfa ekki á hjálpinni að halda, er ríkisstjórn sem á fyrir löngu að vera búin að pakka saman og pilla sig enda er hún algerlega verkstola. Hún er algjörlega vanhæf í öllum þeim störfum meira og minna sem hún er að vinna hér. Við höfum ekki vitað það síðustu fjórar vikur hvort við erum að koma eða fara í þessum þingsal vegna þess að það logar allt stafnanna á milli í þessari „ágætu“ ríkisstjórn. Þannig að ég segi ekkert annað en það að ég mun hrópa hallelúja uppi í Hallgrímskirkjuturni þegar þessi ríkisstjórn hefur lagt upp laupana og einhverjir aðrir hafa tekið við stjórnartaumunum sem vita hvernig þeir eiga að fara með allt samfélagið en ekki bara hluta af því.