„Varla þarf að hafa mörg orð um óheyrilega útgjaldaaukningu ríkisins undir stjórn Sjálfstæðisflokksins. Ítrekað hefur komið fram að núverandi ríkisstjórn hefur slegið öll met í eyðslu almannafjár. Mestu útgjöld sögunnar, hraðasta aukningin (í krónum talið og hlutfallslega) og mestu útgjaldaáformin til framtíðar,“ segir meðal annars í nýrri Moggagrein Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.
„Ein ríkisstjórn afrekaði á 5 árum að auka útgjöld ríkissjóðs um hátt í 70% í krónum talið og um þriðjung á föstu verðlagi. Þetta á ekki að vera hægt. Beðið var um skilning vegna ófyrirséðra covid-útgjalda á meðan stjórnvöld lokuðu fyrirtækjum og verðmætasköpun í landinu að miklu leyti. Sá skilningur var veittur enda fylgdi sögunni að þegar efnahagslegum áhrifum faraldursins lyki yrði strax ráðist í aðhaldsaðgerðir og niðurgreiðslu skulda. Sú varð ekki raunin. Hin miklu útgjöld vegna „neyðarástands á heimsvísu“ mynduðu hér nýtt gólf í ríkisútgjöldum sem strax var hafist handa við að byggja ofan á,“ sagði SDG.
„Verst er þó líklega svartsýni ríkisstjórnarinnar á eigin getu til að ná tökum á ástandinu. Í fjármálaáætlunum sínum til næstu ára hefur ríkisstjórnin aldrei gert ráð fyrir að hægt sé að ná tökum á ríkisfjármálum fyrr en einhvern tímann í tíð næstu ríkisstjórnar. Svartsýnin vex jafnt og þétt. Spá stjórnarinnar um útgjöld ársins 2025 vex t.d. um u.þ.b. 100 milljarða með hverri áætluninni sem birtist. Þetta eru ekki gæfuleg skilaboð frá ríkisstjórn á verðbólgu- og hávaxtatímum,“ sagði formaður Miðflokksins.