Nú er kominn tími til að hún hysji upp um sig og nái í arðinn sem er í Íslandsbanka og noti hann fyrir fólkið.
„Ríflega 4.000 manns hafa verið án vinnu í meira en ár og um 6.600 án vinnu í 6–12 mánuði. Samtals hafa því um 11.000 manns verið án vinnu lengur en í hálft ár. Sambærileg tala fyrir árið 2019 var 3.800. Nú stefnir í að fleiri hundruð falli af bótum á þessu ári. Það fólk verður þá að segja sig til sveitar, leita á framfærslu sveitarfélaganna,“ sagði Guðmundur Ingi Kristinsson Flokki fólksins á Alþingi í dag.
„Bara í Reykjanesbæ verða það að óbreyttu 200 manns á árinu sem er nýhafið. Það eru hrikalegar tölur og á bak við þær er mikil vanlíðan og áhyggjur þúsunda borgara í þessu landi af afkomu, fátæks fólks sem sér fram á að stefna í fátæktargildru. Ríkisstjórnin verður að hætta strax að skoða málin með því einu að bora í nefið, því að fram undan er þörf á 2,5 milljörðum í aukningu á félagsbótum hjá sveitarfélögunum. Þá einnig er þörf á stórauknum fjármunum til öryrkja og eldri borgara,“ sagði Guðmundur Ingi.
„Nú verður ríkisstjórnin að hætta að vera með velferðarmálin á hælunum, eins og hún hefur verið allt kjörtímabilið, gagnvart þeim sem reyna að tóra á sultarbótum og smánarlega lágum lífeyrislaunum. Nú er kominn tími til að hún hysji upp um sig og nái í arðinn sem er í Íslandsbanka og noti hann fyrir fólkið. Börnin fyrst, fólkið fyrst, fjölskyldan fyrst og svo allt hitt, eru kjörorð Flokks fólksins. Því miður eru það ekki kjörorð þessarar ríkisstjórnar heldur vill hún selja gullgæsina, bankana, til hverra? Eitt prósent af auðmönnum Íslands. Okkur ber skylda til að beita öllum tiltækum ráðum til að bjarga þeim verst settu og þá sérstaklega núna meðan við erum að komast út úr veirufaraldrinum.“