Hvernig í ósköpunum stendur á því að verkalýðshreyfingin er ekki kominn í startholurnar?
Katrín Baldursdóttir skrifar:
Verkalýðshreyfingin hélt að ríkisstjórnin ætlaði að bæta hag launafólks með lífskjarasamningnum. En annað hefur komið á daginn. Sigurvegarinn í lífskjarasamningnum er ríkisstjórnin. Launafólk hefur verið svikið. Það hefur komið í ljós með nýja fjárlagafrumvarpinu. Verkalýðshreyfingin hefur vaknað við vondan draum en ætlar samt að lyppast niður eins og þægur rakki við fætur ríkisstjórnar hinna ríku. Það virðist að minnsta kosti ekkert í farvatninu sem bendir til annars.
ASÍ lýsir yfir verulegum vonbrigðum með fjárlagafrumvarpið 2020 og segir m.a. að skattabreytingar skili sér of seint. Létta hefði þurft skattbyrðinni á þá verst settu strax. Þeir lægst launuðu, öryrkjar og eftirlaunafólk geti ekki beðið. Efling hefur einnig lýst yfir verulegum vonbrigðum með útkomuna.
Og hvað er það svo sem á að renna í vasa launafólks? Ekkert árið 2019. Skattkerfisbreytingarnar koma fyrst til framkvæmda árið 2020. Þeir lægst launuðu sem eru með 317 þúsund á mánuði fá aðeins 2.900 kr. lækkun skatta á mánuði. Fram kemur í frétt á heimasíðu ASÍ að þeir sem fá 500 þúsund á mánuði fái svipaða lækkun.
En þessi 2.900 kall er strax horfinn út í verður og vind og rúmlega það vegna ýmis konar skattahækkana sem fram koma í frumvarpinu. Og gott betur því til stendur að leggja á veggjöld, sem koma verst niður á þeim sem minnst hafa. Samt var talað um það í lífskjarasamningum að eitt af framlögum ríkisstjórnarinnar væri að árið 2020 myndu gjöld ekki hækka meira en um 2,5% að hámarki og minna ef verðbólga yrði lægri(sjá mynd1). Margir liðir eiga að hækka meira en það og sumir talsvert meira.
Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar vegna lífskjarasamningsins, átti að lækka skatta á þá lægst launuðu um 10 þúsund kr. Það frestast að efna það. Og það kom mönnum alveg í opna skjöldu að ríkisstjórnin ætlar að lækka persónuafsláttinn, samkvæmt frumvarpinu. Ekki stendur það í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar vegna lífskjarasamningsins, heldur þvert á móti er talað um hækkun persónuafsláttar.
Ríkisstjórnin lofaði að stuðningur við leigjendur yrði aukinn verulega(sjá mynd 2), en ekkert bólar á slíkum úrbótum.
Svo er það brandarinn að ríkisstjórnin sem lætur í veðri vaka að hún sé að fórna svo miklu til að koma til móts við launafólk gerir ráð fyrir að græða á tekjuskattslækkuninni samkvæmt frumvarpinu 2020. Ríkisstjórnin telur sig fá þetta allt til baka í formi aukinna neysluskatta og gott betur (sjá mynd 3).
Hvernig í ósköpunum stendur á því að verkalýðshreyfingin er ekki kominn í startholurnar og gerir kröfur um tafarlausar breytingar launafólki til heilla? Hvaða aumingjagangur er þetta? Á ríkisstjórnin bara að standa með pálmann í höndunum á meðan launafólk heldur áfram að lepja dauðann úr skel? Vill grasrótin það? Eða stendur ekki til að upplýsa hana um málið?