Við vitum að fólk sem borgar leigu og þarf mat og lyf lifir ekki á 230.000 krónum fyrir skatt.
„Hámarksfjárhæð til aldraðs einstaklings sem býr hér á landi en á hvorki lífeyrisréttindi hérlendis né erlendis og er algjörlega tekjulaus getur þannig numið allt að 231.110 kr. á mánuði og sé viðkomandi einhleypur getur fjárhæðin numið allt að 289.510 kr. á mánuði.“
Þetta er úr þingræðu Ásmundar Einars Daðasonar félagsmálaráðherra þegar hann mælti fyrir frumvarpi ríkisstjórnarinnar um félagslegan viðbótarstuðning við aldrað fólk.
Guðmundur Ingi Kristinsson, Flokki fólksins, fagnaði málinu en sagði: „Ég hef séð fólk fá greiðslur niður í 60.000–70.000 kr. og eiga að lifa af því á mánuði sem allir vita að gengur ekki upp, hvað þá ef um einstakling er að ræða.“
Guðmundur Ingi sagði að endurreikna verði framfærslukostnað.
„Það er nauðsynlegt að fara að reikna út rétta framfærslu miðað við það viðmið hvað fólk þarf að hafa hér á landi til að lifa mannsæmandi lífi. Það segir sig sjálft að 230.000 kr. eru undir fátæktarmörkum þannig að það stenst enga skoðun. Það er eiginlega við sárafátæktarmörk, upphæðin er svo lág. Því miður verður þessi hópur sennilega enn í neðstu þrepum í fjárhæðum sér til framfærslu.“
„Við vitum að fólk sem borgar leigu fyrir húsnæði og þarf mat og lyf lifir ekki á 230.000 kr. fyrir skatt. Það er útilokað og þess vegna eigum við að fara í það núna að laga það. Oft er þörf en nú er nauðsyn að finna rétta framfærslu þannig að allir geti lifað með reisn,“ sagði Guðmundur Ingi Kristinsson.