- Advertisement -

Ríkisstjórnin beitir okkur blekkingum

Það er eitt af því ömurlegasta.

Guðmundur Ingi Kristinsson.

Guðmundur Ingi Kristinsson tók þátt í umræðum um mál Samfylkingarinnar um breytingar á lögum um almannatryggingar.

Guðmundur Ingi sagði meðal annars: „Á sama tíma og ekkert virðist vera í gangi hjá núverandi ríkisstjórn til að hækka þessar bætur til öryrkja er verið að hækka gjöld og skatta. Ríkisstjórnin gæti stutt þetta frumvarp alveg heils hugar en er þvert á móti að blekkja. Það sem er leiðinlegast er að það er verið að blekkja hópinn sem bíður og vonar ár eftir ár. Það er alltaf verið að láta hann halda að nú fái hann eitthvað, fólki er gefið með annarri hendinni en það hrifsað burtu með hinni hendinni og jafnvel gott betur. Það er eitt af því ömurlegasta.“

Hér má lesa alla ræðu Guðmundar Inga:

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Loga Einarssyni fyrir framsöguna og frumvarpið sem ég styð alveg heils hugar. Það segir sig sjálft að fyrir löngu er orðið tímabært að komið sé fram við þá sem verst hafa það, öryrkja og lífeyrislaunaþega, þannig að þeir geti lifað nokkurn veginn mannsæmandi lífi og séu á svipuðum stað og launafólk. Það sem er hvað sorglegast í þessu er sá núningur sem hefur verið búinn til undanfarin ár á milli öryrkja, eldri borgara, atvinnulausra og launafólks. Þessum hópum er haldið aðskildum, öryrkjarnir eru neðstir, síðan koma atvinnulausir og loks launafólkið. Með alls konar brellum hefur núverandi ríkisstjórn reynt að sýna fram á að búið sé að bæta kjör öryrkja þannig að þeir séu á lágmarkslaunum sem er alls ekki rétt. Það er ekki einu sinni hægt að ná því fram með brellum. Fyrir utan gera skerðingarnar sem fylgja það að verkum að fólk sem fær borgaða ákveðna upphæð frá Tryggingastofnun ríkisins í formi lífeyrislauna veit ekki á næsta ári hvort þær greiðslur séu sambærilegar vegna þess að ef eitthvað bregður út af er skert. Engar nýjar tekjur mega koma inn, þá er skert. Það segir sig sjálft að ef ekki er hægt að lifa af rúmlega 215.000 kr. útborguðum, sem flestir lifa á, og síðan koma skerðingar upp á 20.000–30.000 kr. árið eftir vegna smávegis aukatekna sem aflað er til að reyna að grynnka á skuldum, er örugglega ekki hægt að lifa af því. Það er ömurlegt. Eitt af því sem við þurfum að gera er að láta kerfið virka á rauntíma.

Kjaragliðnunin er um 60%, eins og kom fram hjá hv. þingmanni. Það segir okkur einfaldlega þá sögu að þessi hópur hefur gjörsamlega setið eftir. Það er eiginlega með ólíkindum hvernig ríkisstjórn eftir ríkisstjórn getur leyft sér að skilja þennan hóp eftir og á sama tíma í hvert einasta skipti lofa honum að nú sé hans tími kominn og nú verði svo sannarlega eitthvað gert í þessum málum. Það þarf eiginlega að skjóta aðeins á verkalýðshreyfinguna í sambandi við lífeyrissjóðsgreiðslur vegna þess að það eru að stærstum hluta konur sem eru á lægstu lífeyrissjóðsgreiðslum. Það er ömurlegt. Ég fæ ekki skilið hvernig við getum látið það líðast enn þann dag í dag að fyrstu 60.000 kr. úr lífeyrissjóðum séu núll hjá öryrkjum. Að vísu erum við búin að taka þetta smávegis til baka hjá eldri borgurum. Það er 25.000 kr. frítekjumark á lífeyrissjóðsgreiðslum sem er mjög gott en það má vera miklu betra. Ég segi fyrir mitt leyti að fyrstu 50.000 eða 60.000 kr. ættu skilyrðislaust að vera frítekjumark hjá öllum lífeyrissjóðsþegum. Ef rétt væri gefið ættu þeir sem hafa greiðslur úr lífeyrissjóði ekki að skerðast þegar t.d. væri komið upp í meðaltekjur viðkomandi stéttar sem viðkomandi taldist til áður en hann fór á örorku. Það væri sanngjarnt viðmið. Það er alveg ömurlegt að detta út af vinnumarkaði og mega þakka fyrir að fá helming af þeim tekjum sem maður hafði áður. Fyrir flest fólk er þetta ávísun á stórvandræði, jafnvel gjaldþrot og þar af leiðandi verri stöðu. Það er sannað að margt fólk hefur misst húsnæði sitt og flosnað upp af leigumarkaði, allt út af þessari stöðu.

Á sama tíma og ekkert virðist vera í gangi hjá núverandi ríkisstjórn til að hækka þessar bætur til öryrkja er verið að hækka gjöld og skatta. Ríkisstjórnin gæti stutt þetta frumvarp alveg heils hugar en er þvert á móti að blekkja. Það sem er leiðinlegast er að það er verið að blekkja hópinn sem bíður og vonar ár eftir ár. Það er alltaf verið að láta hann halda að nú fái hann eitthvað, fólki er gefið með annarri hendinni en það hrifsað burtu með hinni hendinni og jafnvel gott betur. Það er eitt af því ömurlegasta.

Hv. þingmaður kom inn á krónu á móti krónu skerðinguna. Nú er sagt að það sé búið en það eru enn 65 aurar á móti krónu. 65 aura skerðing er að einum þriðja betri en krónuskerðing en tveir þriðjueru enn til skerðingar og verið er að taka milljarða enn eitt árið af öryrkjum þótt þegar sé búið er að rétta stöðu eldri borgara. Það mun koma frumvarp frá Flokki fólksins um að við uppfærum skattkerfið til þess sem var þegar sett var á staðgreiðsla 1988 þannig að rúmar 300.000 kr. væru í dag skatta- og skerðingarlausar. Á þeim tíma voru lífeyrislaun frá Tryggingastofnun ríkisins skattlaus og fólk hafði jafnvel 20–30% upp í lífeyrissjóð. Ef við tækjum upp slíkt kerfi myndi hagur lífeyrislaunaþega stórbatna. Þess vegna styð ég þetta frumvarp heils hugar. Ég vona að það verði samþykkt og að það sé bara fyrsta skrefið í því að hækka þetta og annað skrefið verði síðan að reyna að sjá til þess að hætt verði að skatta fátæktaraurana sem er verið að borga út í kerfinu.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: