„Ég tel, eins og ég hef áður sagt, að þetta minnisblað sem er forsenda fyrir þessari vantrauststillögu skapi engan grundvöll fyrir þeim stóryrðum sem hér hafa fallið.“
Katrín Jakobsdóttir.
„Við vitum það öll sem hér erum í þessum sal að vantrauststillaga er svo sannarlega ekki sett fram af neinni léttúð og þar er ég sammála háttvirtum þingmönnum stjórnarandstöðunnar. Hún er svo sannarlega ekki meðhöndluð af neinni léttúð af þingmönnum ríkisstjórnarflokkanna enda ekkert skemmtiefni um að ræða,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á þingi fyrr í dag.
„En við vitum það líka sem hér erum að slíkar tillögur eru iðulega settar fram til að kljúfa samstöðu í ríkisstjórn, kannski eðlilega. Ég vil ítreka það hér að ríkisstjórnarsamstarfið stendur styrkum fótum. Áskoranirnar fram undan eru stórar og verkefnin mikilvæg og við hikum ekki við að takast á við þau. Ég tel, eins og ég hef áður sagt, að þetta minnisblað sem er forsenda fyrir þessari vantrauststillögu skapi engan grundvöll fyrir þeim stóryrðum sem hér hafa fallið. Ég tel þessa tillögu þar af leiðandi ekki nægjanlega ígrundaða, en ítreka að það er full ástæða til að skýra verklag við veitingu ríkisborgararéttar hér á Alþingi og ákveða nánar tilhögun þeirrar afgreiðslu sem þingið hefur þegar falið Útlendingastofnun með lögum þannig að á því sé sá bragur að við getum öll vel við unað.“
Hér hægt að lesa alla ræðu Katrínar.