Stundum finnst mér eins og við vinnum ekki í heilbrigðu umhverfi.
Oddný Harðardóttir skrifar:
Ástandið á Alþingi er ekki gott. Ríkisstjórnarflokkarnir ráða ekki neitt við neitt. Þeir eru ekki sammála um hvernig eða hvort eigi að leita sátta og lausna. Og svo hafa þau ekki sammælst um hvernig endanlegar tillögur eiga að vera um fjármálaáætlun til næstu fimm ára. Fiskeldið þvælist fyrir þeim og makríllinn auðvitað. Þau virðast samt sammála um að sameina Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið og skipta ráðningu fjögurra yfirmanna á milli forsætisráðuneytis og fjármálaráðuneytis sem minnir a gömlu helmingaskiptin.
Stundum finnst mér eins og við vinnum ekki í heilbrigðu umhverfi en á móti kemur að við megum ekki gefast upp því lýðræðið er undir.
Veturinn 2012 heimsótti ég Indland með þáverandi forseta Alþingis Íslendinga. Við heimsóttum þingið í Nýju Deli. Fyrsta mál á dagskrá þingfundar var verð á eldunargasi. Þegar að forseti þingsins hafði tilkynnt um málið sem væri á dagskrá varð allt vitlaust í salnum. Þingmenn þyrptust að stóli forsetans með mótmælaspjöld og háreisti. Að lokum sleit forsetinn þingfundi.
Á fundum sem við áttum eftir þetta með þingforseta, þingmönnum og ráðherrum kom skýrt fram að slíkar uppákomur væru algengar og þingfundir stuttir fyrir vikið. Samtölin um þingmálin ættu sér stað í bakherbergjum með samningum og hrossakaupum í stað lýðræðislegrar umræðu og niðurstöðum að þeim loknum.
Við verðum að forða okkar Alþingi frá slíku ástandi og breyta leikreglunum. Gefa stjórnarandstöðunni sitt svigrúm en smíða einnig umgjörð um lyktir mála. Mikilvægt er að ákveðið hlutfall þingmanna geti vísað málum til þjóðarinnar. Með slíkum varnagla trúi ég að allir muni vanda sig betur við undirbúning mála og málflutning.
Fengið af Facebooksíðu Oddnýjar.