- Advertisement -

Ríkisstjórn stjórnleysis

Til að búa samfélagið undir næstu mánuði og misseri þarf ríkisstjórnin að átta sig á vandanum.

Gunnar Smári skrifar:

Fyrir utan sóttvarnir er Ísland stjórnlaust. Aðgerðarpakki ríkisstjórnarinnar var sniðin að allt annarri stöðu en er raunverulega uppi. Ríkisstjórnin veðjaði á snöggan samdrátt atvinnu- og efnahagskerfis og síðan jafn snöggan bata að nokkrum vikum liðnum. Hún veðjaði á hægt væri að mæta vandanum með almennum aðgerðum, styrkingu atvinnuleysissjóðs svo hann gæti greitt laun fólks með skert starfshlutfall og greiðslufresti á sköttum fyrirtækja, en fyrst og fremst með verulegri innspýtingu á lánsfé til fyrirtækja í gegnum bankakerfið. Það má vera að þetta hefði dugað ef fólk og fyrirtæki sæju fram á snögga V-laga kreppu, snögga niðurleið og jafn snögga uppleið. En þau eru ekki mörg eftir sem trúa slíku. Meira að segja Donald Trump hefur sætt sig við að lokun samfélaga vegna kórónafaraldursins mun vara lengi og afleiðingarnar verða langvarandi.

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar, sem samþykktar voru í fyrradag, eru því ekki nægar til að hjálpa þeim sem eru í versta vandanum, til þess eru þær ekki nógu sértækar, hitta ekki vandann þar sem hann veldur mestum skaða. Þetta á bæði við fyrirtæki og fólk; aðgerðirnar ná engan veginn utan um stöðuna í ferðaþjónustunni og þær snerta ekki vanda þess fólks sem stendur veikast; fátækasta fólkið, skuldugasta fólkið, fólkið sem býr þrengst, fólk sem covid-veikin hittir verst o.s.frv. En þau fyrirtæki sem síst þurftu á hjálp að halda; útgerðarrisarnir, stórfyrirtæki í fákeppni og einokun, Kvika og önnur braskfyrirtæki; geti gengið að allskyns tilboðum til að auka ráðstöfunarfé sitt til að kaupa upp eignir og rekstur í vanda.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Krónan er enn á floti.

Í stað þess að mæta yfirstandandi og fyrirsjáanlega harðnandi kreppu af festu, þar sem haldið er utan um það sem mestu skipti og taumhald lagt á þá sem vilja misnota veika stöðu annarra; erum við að sigla inn í tímabil ekki ósvipað og var hér mánuðina fyrir Hrunið 2008 þegar fyrirtækja- og fjármagnseigendur notuðu tímann til að bjarga eigin skinni, til að flýja með fé út úr krónunni, til að losa sig úr persónulegum ábyrgðum, til að stinga undan fé, búa til kröfur á fyrirtækin og greiða sér út, koma verðlausum hlutabréfum yfir á þau sem ekki gá að sér (lesist: fyrst og fremst lífeyrissjóðir) o.s.frv.

Yfir verkalýðsfélögin rignir nú ábendingum um hvernig fyrirtæki misnota aðgerðir ríkisstjórnarinnar; láta starfsfólk skrifa undir samning um skert vinnuframlag til að geta sótt 75% launanna í ríkissjóð, en segja fólkinu svo upp daginn eftir. Í bönkunum er nú skipulagðar björgunaraðgerðir, ekki til að bjarga Íslandi heldur til að bjarga bankanum sjálfum og stærstu skuldurunum, sem eru fyrst og fremst stærstu eigendur stærstu fyrirtækjanna. Krónan er enn á floti, minnsti gjaldmiðill í heimi sem er látinn fljóta í logni og eini gjaldmiðlinni sem er látinn fljóta í ofsaveðri. Ríkisstjórnin heldur hliðinu opnu svo hin ríku geti flúið krónuna, þegar það er búið mun krónan falla og þá fyrst verða sett á gjaldeyrishöft, nokkuð sem ríkisstjórnin hefði átt að gera fyrir mörgum vikum, ef markmiðið hefði verið að vernda almenning.

Því miður er ástandið nokkurn veginn svona. Á meðan láglaunafólkið í matvöruverslununum, starfsfólkið í heilbrigðiskerfinu og fleiri stéttir einbeita sér að því að halda samfélaginu gangandi í gegnum mestu ógn sem steðjað hefur að því frá seinna stríði snúast aðgerðir ríkisstjórnarinnar að sáralitlu leyti að því að tryggja samfélagið lifi af, heldur fyrst og fremst að því að auka ráðstöfunarfé stærstu eigenda stærstu fyrirtækjanna og auðugustu fjármagnseigendanna, svo þeir geti bjargað eigin skinni. Aðgerðirnar voru kynntar sem brú yfir fáeinar vikur af ókyrrð, en hafa í reynd ekki bjargað einu einasta starfi. Það hefur enginn verið ráðinn vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar til að mæta auknum þörfum fólks fyrir þjónustu vegna covid. Fyrir utan sjálfsagða eflingu atvinnuleysistryggingasjóðs gagnvart fyrirsjáanlegu atvinnuleysi á stærð við það sem geisaði í kreppuna miklu, beinast aðgerðirnar fyrst og síðast að þeim sem ríkisstjórnin þjónar ætíð í reynd, 0,1% þjóðarinnar, allra auðugasta fólki landsins.

Til að búa samfélagið undir næstu mánuði og misseri þarf ríkisstjórnin að átta sig á vandanum. En hvað þarf til svo hún horfist í augu við vandann? Og hætti að láta þau stýra aðgerðum sínum, sem líta á kreppuna sem stórkostlegt tækifæri til að auka enn völd og auð eigenda þeirra fyrirtækja sem skilgreind verða sem lífvænleg? Eina sem getur vakið stjórnvöld er almenningur. Hvað vill hann? Hvar kemur vilji hans fram?

Á meðan almenningur sýnir samstöðu og hlýðir sóttvarnaryfirvöldum eru þau sem falið hefur verið að halda atvinnu- og efnahagslífinu gangandi, eigendum fyrirtækja og fjármagns, ekki að hugsa um neitt nema eigin hag. Það er innbyggt í það kerfi sem þau vinna eftir, þau trúa því að með því að hugsa fyrst og síðast um eigin hag séu þau að hugsa um almannahag. Að treysta slíku fólki fyrir samfélaginu eru algjörlega gagalagú.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: