- Advertisement -

Ríkisstjórn sem tekur engar ákvarðanir

Stóra spurningin er auðvitað miklu frekar þessi: Tilheyrir þessi ríkisstjórn fortíð frekar en framtíð? 

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir.

„Svandís Svavarsdóttir sjávarútvegsráðherra segir okkur nú að ekki standi til að ógilda veiðileyfi hvals þrátt fyrir niðurstöður Matvælastofnunar um að fjórði hver hvalur sé skotinn oftar en einu sinni við drápin, að 40% hvalanna deyi ekki samstundis. Kýr með fóstur eru drepnar, sem er bannað samkvæmt dýraverndunarlögum, og mjólkandi kýr sömuleiðis. Samkvæmt lögum eiga drápin vera bæði skjót og sársaukalaus. Það er ekki tilfellið í um 40% tilvika og engu að síður eru hin pólitísku skilaboð þau að við höldum bara áfram,“ sagði Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir á Alþingi í gær.

„Staðreyndin er sú að það má svipta leyfi bæði tímabundið og varanlega og lagalega er þetta ekki sérstaklega flókið. Ef þessi skýra niðurstaða núna dugar ráðherranum ekki til, hvenær er þá eiginlega ástæða til? Ef ráðherra stoppar ekki tímabundið veiðar eftir þennan áfellisdóm finnst mér blasa við að ráðherra verði bara að vera samkvæm sjálfri sér og dúndra út næsta leyfi aftur.

Helsta vörumerki þessarar ríkisstjórnar er að hún tekur engar ákvarðanir. Ráðherrar birtast sem álitsgjafar í fjölmiðlum, lýsa yfir áhyggjum og svo gerist ekkert. Þetta kalla þau síðan gjarnan stöðugleika. Hæstvirtur ráðherra talar nú um að það þurfi þrek til að ræða þessi mál en ríkisstjórnin þarf ekki þrek til að tala meira, hún þarf þrek til að taka einu sinni ákvörðun. Undir eru almannahagsmunirnir, dýravelferð og hagsmunir umhverfis. 65% Íslendinga telja að hvalveiðar hafi neikvæð áhrif á orðspor landsins. Dýrin þjást lengi eftir sprengiskutlana og síðast en ekki síst er þetta umhverfismál; hvalir búa yfir þeim magnaða hæfileika að binda kolefni sem nemur um 1.500 trjám á líftíma sínum.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Ég vil aftur vitna í orð hæstvirts sjávarútvegsráðherra þegar hún segir að við stöndum frammi fyrir því að endurskoða það hvort þessi atvinnugrein tilheyri ekki fortíð frekar en framtíð. Stóra spurningin er auðvitað miklu frekar þessi: Tilheyrir þessi ríkisstjórn fortíð frekar en framtíð?“ 


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: