„Ég get ekki með nokkru móti skilið hvernig mögulegt er að kjósa yfir sig stjórnvöld sem kúga og pína fólkið sitt. Sem lofa bót og betrun en standa ekki við neitt. Stjórnvöld sem segja að fátækt fólk geti ekki beðið eftir réttlæti en samt bíður það enn og örbirgðin einungis vex. Að hugsa sér að í okkar ríka landi þar sem talið er að smjörið drjúpi af hverju strái skuli vera tugir þúsunda samlanda okkar sem hrópa á hjálp,“ þannig skrifar Inga Sæland, þingmaður og formaður Flokks fólksins í grein sem birt er í Mogganum í dag.
Inga talar til lesenda: „Staðreyndin er sú að án ykkar get ég ekkert. Það er alfarið í ykkar höndum að planta mér þar sem þið viljið að ég beri ávöxt. Í mínum huga er það óskiljanlegt hvernig mögulegt er að velja til valdsins aðila sem alfarið vinna að sérhagsmunagæslu í stað þess að huga að almannahag. Hvernig má það vera að tæplega 10% barnanna okkar líða hér mismikinn skort og það í boði kjósenda sem láta sér fátt um finnast!“
Og Inga endar greinina svona: „Ég segi enn og aftur: „Tökum saman höndum hvar í flokki sem við stöndum, útrýmum fátækt í fallega landinu okkar og gerum það saman.“