Stjórnmál

Ríkisstjórn Katrínar skerðir og skerðir

By Miðjan

May 30, 2021

„Ísland er með heimsmet í skerðingum og það er bætt inn í kerfið. En ef þú bætir inn í kerfið þá er bara skert annars staðar, það skilar sér ekki. Það sem er kannski furðulegast er að svör ráðherra sýna fram á fimm milljarða skerðingu á ári í tíð þessarar ríkisstjórnar, tuttugu milljarðar í heildina. Ég spyr líka, af því að hann svaraði því ekki: Hvers vegna í ósköpunum er ekki reiknað út rétt framfærsluviðmið? Hvers vegna viljið þið ekki að hafa rétt framfærsluviðmið sem gæti komið í veg fyrir að fólk svelti? Eigum við ekki a.m.k. til bráðabirgða að hækka framfærslu almannatrygginga tímabundið, hækka frítekjumörkin svo fólk nái endum saman meðan vinna fer í gang við að endurskipuleggja kerfið sem við erum þó sammála um að er meingallaður bútasaumaður óskapnaður,“ sagði Guðmundur Ingi Kristinsson á Alþingi.

Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra svaraði Guðmundi aldrei beint, heldur hengdi sig á að gera verði miklar breytingar en sagði ekkert um ömurlega stöðu fjölda fólks:

„En þarf að gera breytingar? Þarf að fara í kerfisbreytingar?  það þarf að gera það og ég og háttvirtur þingmaður erum sammála um það og ég hef áður lýst vonbrigðum mínum með að ekki skyldi takast samkomulag um það fyrr á þessu kjörtímabili.En ég held að við háttvirtur þingmaður séum sammála um að það þarf að fara í þær breytingar.“

Í upphafi umræðunnar sagði Guðmundur Ingi

„Hvers vegna stendur óskertur lífeyrir almannatrygginga ekki undir grunnframfærslu? Það vanar 70.000 kr. og allt upp í 140.000 kr. ef þeir verst settu, sem eru með rúmlega 200.000 á mánuði eftir skatta, eru teknir inn í. Þetta er ekkert annað en sárafátækt og svelti og gjörsamlega vonlaust að lifa svona. Hvers vegna er ekki búið að reikna út rétta mannsæmandi framfærslu sem dugar til þess að lifa af án þess að fólk svelti og þurfi að búa í ósamþykktum íbúðum og óhæfu húsnæði og það með börn?“