Klæjar einhverja í lófana eftir að komast yfir þrotabú þessara fyrirtækja?
Marinó G. Njálsson skrifaði:
Íslandi var bjargað eftir hrun af ferðamönnum og ferðaþjónustunni eftir tvö eldgos. Árlegar tekjur þjóðarbúsins af ferðamönnum hafa verið að fara vel upp fyrir 400 ma.kr. Í annað sinn á 13 mánuðum sýnir ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur að hún áttar sig ekki á mikilvægi ferðaþjónustunnar. Í annað sinn á 13 mánuðum telur ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur ekki ástæðu til að koma ferðaþjónustunni til aðstoðar á þann hátt að koma megi í veg fyrir gjaldþrot fyrirtækja innan greinarinnar.
Ég átta mig á því að ekki verður öllum ferðaþjónustufyrirtækjum bjargað. Sum hafa ekkert val og stefna í gjaldþrot nema þau geti hreinlega lagst í dvala eða breytt þjónustuframboði sínu þannig að það henti innlendum ferðamönnum. Allir verða/eru búnir að draga saman seglin. En mikið væri gott, ef ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur sýndi einhverja viðleitni til að hjálpa sem flestum.
Aðgerðarpakkarnir tveir sem hafa verið kynntir, hafa verið þunnur þrettándi. Greiða má gistináttagjald vegna mars til desember einhvern tímann seinna. Hvaða gistináttagjald má ég spyrja? Fyrir þessa 100 Íslendinga (eða hvað þeir verða margir) sem gista á hótelum á Norðurlandi í apríl? Og þó þeir verði 1000 í maí og 2000 í júní? Svo mega fyrirtækin fresta greiðslu á hluta staðgreiðslu af launum sem þau hafa ekki einu sinni efni á að greiða! Klæjar einhverja í lófana eftir að komast yfir þrotabú þessara fyrirtækja? Svo er það 5.000 kr. ávísunin sem senda á hverjum Íslendingi 18 ára og eldri (eða var það bara upp að 70 ára) svo hann gæti borgað ferðaþjónustuaðila fyrir keypta þjónustu. Hvað ætli það séu margir Íslendingar á þessum aldri? Gefum okkur að þetta séu 280.000 einstaklingar (gætu verið fleiri, gætu verið færri). Látum okkur sjá 5.000×280.000=1,4 ma.kr. eða 0,35% af gjaldeyristekjunum sem greinin skapaði þjóðarbúinu á síðasta ári (ég miða við 400 ma.kr., en líklega er talan hærri). Vá, rosalega er ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur örlát við fyrirtækin sem drógu Ísland upp úr forarpytti bankahrunsins og eftirmála þess. Virkilega áhugaverð leið til að sýna þakklæti sitt. Mér koma upp í hugann orðin sem Laxnes lagði Jóni Hreggviðssyni í munn: „Vont er þeirra ranglæti, en verra þeirra réttlæti.“
Ég vona innilega, að ráðherrar ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur séu í alvöru að hugleiða úrræði sem gagnast ferðaþjónustunni. Mig langar að koma með nokkrar hugmyndir:
- 1. Aðstoða ferðaþjónustufyrirtæki við að leggjast í dvala. Staðreyndin er að ekki þarf öll þessi fyrirtæki til að þjónusta þá Íslendinga sem ætla að nota 5.000 kr. ávísunina og þó þeir borgi hver kannski 100.000 kr. til viðbótar. Rekstur sumra fyrirtækja er þannig, að væri ekki fyrir ýmis föst útgjöld og afborganir lána, þá gætu þau hreinlega lagst í dvala. Auk þess sem við viljum að þau séu til, þegar fer að birta á ný. Ríkið gæti komið til móts við þau og t.d. greitt vexti lána sem síðan fara í frystingu hjá bankanum, veitt vaxtalaus lán til nokkurra ára svo fyrirtækin gætu staðið skil á föstum útgjöldum, en um leið yrðu fyrirtækin að draga saman seglin, t.d. segja upp öllum ónauðsynlegum leigusamningum.
- 2. Kaupa þjónustu af ferðaþjónustu fyrirtækjum, sem fælist t.d. í því að þau velji sér svæði sem þau taka í gegn, hvort sem það er viðhald, uppbygging, endurbætur, snyrting, o.s.frv. Sem sagt gera Ísland betra til að taka á móti þeim ferðamönnum sem munu koma í framtíðinni.
- 3. Kaupa endurgreiðslukröfur af ferðaþjónustufyrirtækjum (eða fjármagna þær).
- 4. Það stefnir í að stór hluti starfsmanna ferðaþjónustufyrirtækja verði atvinnulausir á næstu mánuðum. Ríkinu munar ekkert um að taka á sig 100% launa þessara starfsmanna í 3 mánuði í staðinn fyrir 75%. Ég hljóma kannski kaldlyndur að það eigi bara að senda fólk á atvinnuleysisbætur, en ríkið hefur ýmsa möguleika til að nýta atvinnulaust fólk í alls konar atvinnubótaverkefni. Menn þurfa bara að taka af skarið. T.d. veit ég að öll opinber skjalasöfn landsins eru að drukkna í skjölum sem opinberir aðilar verða að senda inn. Þau gætu örugglega nýtt fleiri hendur við flokkun og skrásetningu skjalanna. Þá þarf eftirlit með framkvæmdunum sem ég legg til í lið 2 að farið verði í. Hægt er að fara í skógræktar- og uppgræðsluátak og sýna að ríkisstjórnin meini eitthvað með sínum grænu markmiðum.
En þó ríkisstjórnin geti gert betur, þá er það samt svo að ferðaþjónustan þarf að draga verulega saman seglin þar til úr rætist. Sjálfur er ég menntaður leiðsögumaður og hef því kynnst innviðum ferðaþjónustunnar. Þar er fullt af hugmyndaríku fólki sem ég er viss um að finnur leiðina út úr ógöngunum.
Greinin birtist á Facebooksíðu Marinós.