Ráðherrarnir mæta á prikið sitt reglulega, belgja út brjóstið og kynna einhver snjallræði sem eiga að redda málunum.
Gunnar Smári skrifar:
Það ætti nú að vera öllum ljóst að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur er gersamlega vanhæf til að mæta þeim erfiðleikum sem landsmenn standa frammi fyrir. Ráðherrarnir mæta á prikið sitt reglulega, belgja út brjóstið og kynna einhver snjallræði sem eiga að redda málunum en ekkert af þessum úrræðum virka. Þau eru vanhugsuð, illa eða alls ekki undirbúin, hitta ekki vandamálið, eru óframkvæmanleg eða eru strand í kerfinu. Eina aðgerðin sem virkar er hlutabótaleiðin enda var hún mótuð í síðasta hruni, ríkisstjórnin gat ræst hana upp en hefði auðvitað átt að girða fyrir misnotkun en gerði ekki.
Það var hrópað á ríkisstjórn Geirs H. Haarde: Vanhæf ríkisstjórn! Með réttu. En sú ríkisstjórn setti þó neyðarlögin, greip til aðgerða til að höggva eitraða banka frá hagkerfinu og lágmarka skaðann af hruninu (sem hún átti sök á) með öðrum hætti.
Og þá kemur spurningin: Ef fólk hrópaði Vanhæf ríkisstjórn um áramótin 2008/2009; hvað ætlar fólk eiginlega að hrópa að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur 2020?