Ríkisstjórn Íslands óttast ekkert
Aðferð Kristjáns Þórs Júlíussonar, við að færa ríkisskólann við Ármúla, til eigenda Tækniskólans, sýnir fullkomlega hvernig hann, og Bjarni Benediktsson, sem eflaust er með í ráðum, lítur stjórnarandstöðuna. Í henni er engin fyrirstaða að þeirra mati. Í mesta lagi tuð einn dagspart í þinginu. Þá er best fyrir þá félaga að vera ekki til staðar, vera annarsstaðar en á þinginu. Stjórnarandstaðan getur þá bara tuðað út í tómið. Sem og hún gerir.
Ríkisstjórnin lagði af stað með eins þingmannsmeirihluta. Minnihluti kjósenda var að baki ríkisstjórninni og hefur fækkað mikið í þeim hópi. Ríkisstjórnin óttast ekkert. Veit sem er að hún kemst upp með það sem hún bara vill. Úrslitin ráðast á Alþingi. Þar er engin fyrirstaða. Ekkert að óttast.
Það sem gerðist í gær er dæmi um það. Ráðherrar sjá ekki ástæðu til að leyna mati sínu á stöðunni í þinginu. Þegar þeir eru minntir á tæpan meirihluta í þinginu, og andstöðu einstakra stjórnarþingmanna, segjast þeir vissir um að stjórnarandstaðan muni draga ríkisstjórnina að landi. Sú er staðan. Ríkisstjórn Íslands, sem hefur minnsta hugsanlega meirihluta, starfar í skjóli ósamstíga stjórnarandstöðu.
Ríkisfjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar nýtur ekki stuðnings allra þingmanna stjórnarflokkanna. Ekki í orði, en kannski á borði, það kemur í ljós. Hvað sem verður mun ríkisstjórnin lifa þá andstöðu af. Þar á bæ er vissa um að einhverjir þingmenn stjórnarandstöðunnar muni leggja stjórninni lið. Mat ráðherranna er að ekkert sé að óttast.
Framganga menntamálaráðherrans nú er skýrt dæmi um hvert mat hans, og annarra ráðherra, er á stjórnarandstöðunni og þinginu sem stofnun. Ekkert samráð, engu svarað þegar spurt er, og svo er ákvörðunin kynnt. Þá er tuðað í þinginu, einn dagspart.
Ríkisstjórn Íslands er óttalaus með öllu. Og kannski er ekkert að óttast. Óttaleysi hennar er með velvild stjórnarandstöðunnar.
Sigurjón M. Egilsson.