Greinar

Ríkisstjórn Biden fylgist með Samherjamálinu

By Aðsendar greinar

May 12, 2021

Sigurjón Þórðarson skrifar:

Það fer ekki á milli mála við lestur tillagna utanríkisþjónustu BNA til Namibíu, að Washingtonstjórnin fylgist grannt með spillingarmálum Samherja í Namibíu. Meðal ráðlegginga Bandaríkjastjórnar er að tryggja gagnsæi, og lagalega vernd uppljóstrara og sömuleiðis að styrkja valdheimildir og fjárhag stofnanna sem rannsaka spillingu. Það er engum vafa undirorpið að Samherjamálið er tilefni þessara skrifa enda er málið stærsta spillingarmálið, sem komið hefur upp í Namibíu.

Það hlýtur að styttast í að Bandaríkjamenn veiti íslenskum stjórnvöldum ráð í sömu veru, nema þá að þeir hafi þegar komið þeim áleiðis til ríkisstjórnar Íslands.Það er a.m.k. fullt tilefni til þess að styrkja stöðu íslenskra blaðamanna og uppljóstrara gagnvart árásum auðmanna, sem reyna að koma í veg fyrir eðlilega umfjöllun. Sama á við um þau ráð að tryggja að þeir sem rannsökuðu mútugreiðslur, skattsvik og peningaþvætti hefðu fullnægjandi heimildir og fjárframlög.

Ekki væri síður úr vegi að ríkisstjórn Biden kæmi þeim skilaboðum til íslenskra stjórnvalda að nauðsynlegt sé að rannsaka náin tengsl íslenskra stjórnmálamanna við fjölþjóðlegt fyrirtæki sem hefur farið á svig við lög og skattareglur, vítt og breitt í Evrópu og Afríku.