- Advertisement -

Ríkissjóður að springa undan vaxtakostnaði

„Það eru ekki skuldirnar heldur vextirnir sem fara með bókhald ríkisins á hliðina. Er það ekki sorglegt?“

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir.

„Heimilin finna rækilega fyrir því hve matarinnkaup eru að hækka í verði og finna fyrir því að vaxtakostnaður rýkur upp og eru að sprengja sig á vaxtakostnaði þessa dagana. Fólkið í landinu veit hvað það þýðir þegar greiðslurnar af lánunum hækka stöðugt, að það hefur áhrif á getuna til að geta gert það sem við vildum annars gera. Færri átta sig á því að svona er líka staða íslenska ríkisins. Ríkissjóður er að sprengja sig á vaxtakostnaði,“ sagði Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir í Viðreisn.

„Áhrifin eru þau sömu og hjá heimilunum í landinu því að skuldirnar eru svo dýrar að þetta hefur áhrif á getu ríkisins til að gera hluti sem við sem samfélag vildum gjarnan gera. Þetta hefur áhrif á fjárfestingu í þjónustu fyrir fólkið í landinu. Auðvitað þarf staðan ekki að vera svona.“

Þorbjörg sagði þetta þegar var verið að ræða fjáraukalög.

„Er það ekki sorglegt?“

„Þar birtast útgjöld sem voru ófyrirséð þegar við afgreiddum fjárlög í fyrra og þar sést þetta svart á hvítu. Vaxtakostnaður ríkisins hækkar um 26 milljarða, fór úr tæpum 100 milljörðum og hækkar um heilar 26 milljarða. Þess vegna er það svo mikið hagsmunamál fyrir fólkið í landinu að lækka skuldir þannig að hægt sé að fjárfesta í þjónustu í staðinn fyrir að borga svona dýra vexti. En það er engin áhersla á þetta hjá ríkisstjórninni, ekki einu sinni núna þegar tekjur ríkisins eru að aukast stöðugt, eru rúmlega 100 milljörðum meiri en gert var ráð fyrir,“ sagði Þorbjörg Sigríður.

„Það er þenslan í samfélaginu sem skilar þessum tekjum og það þýðir að áfram munum við borga ævintýralega háa vexti. Fjárfesting stjórnvalda í heilbrigðisþjónustu er minni en á hinum Norðurlöndunum, framlög til löggæslu frekar lítil og innviðir eru víða veikir vegna þess að ríkissjóður er að sprengja sig á vaxtakostnaði. Það eru ekki skuldirnar heldur vextirnir sem fara með bókhald ríkisins á hliðina. Er það ekki sorglegt?“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: