Ríkisendurskoðun fær heimildir til að skoða bókhald fyrirtækja.
Ríkisendurskoðun fær, að óbreyttu, auknar heimildir til rannsókna þar sem kannað verður ýmislegt sem ekki hefur verið gert til þessa.
Það var forseti Alþingis, Steingrímur J. Sigfússon, sem mælti fyrir frumvarpinu.
„Í frumvarpinu felst, verði það að lögum, að skýrri lagastoð er skotið undir sérstaka starfseiningu innan Ríkisendurskoðunar sem mun í framhaldinu sinna eftirliti með því að tekjur ríkisins skili sér í samræmi við áætlanagerð ríkisins og kanna ýmis tekjuöflunarkerfi þess,“ sagði Steingrímur J.
Hvað stendur til að gera?
„Nú hefur ríkisendurskoðandi í hyggju að leggja aukna áherslu á þetta hlutverk með sérstakri starfseiningu innan embættisins og ánægjulegt er að upplýsa að í fjármálaáætlun sem er nú til meðferðar í þingnefnd er gert ráð fyrir upphafsfjárheimildum til að efla embættið að þessu leyti. Í eftirlitinu felst m.a. að kanna forsendur afskrifta skattkrafna, yfirfara forsendur álagningar opinberra gjalda og annarra skatta, endurskoða og kanna forsendur rekstrartekna stofnana og hafa eftirlit með því að sértekjur stofnana séu innheimtar í samræmi við lög og fylgjast með innheimtu opinberra gjalda og skatta. Hér er að sjálfsögðu ekki um það að ræða að embætti Ríkisendurskoðunar fari að taka ákvarðanir á þessu sviði eða blanda sér inn í skattframkvæmdina sem slíka, heldur hafa eftirlit með henni og fylgjast með því hvernig gengur.“
Verði frumvarpið samþykkt verður ríkisendurskoðenda heimilt að skoða bókhald þriðja aðila:
„Þá er jafnframt lagt til að aðgangsheimild ríkisendurskoðanda að bókhaldi þriðja aðila verði skýrar þegar um er að ræða greiðslur úr ríkissjóði eða endurgreiðslur kostnaðar. Þetta er í vaxandi mæli mikilvægt. Má í því sambandi nefna t.d. endurgreiðslu kostnaðar við kvikmyndagerð eða endurgreiðslu útlagðs kostnaðar vegna rannsóknar- og þróunarstarfsemi þar sem verulegir fjármunir skipta um hendur þegar ríkið endurgreiðir umtalsverðar fjárhæðir útlagðs kostnaðar af þessu tagi,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon.