„Félagið mun að auki hafa aðgang að rekstrarlánalínum hjá viðskiptabönkum sínum að samtals fjárhæð 52 milljónir Bandaríkjadala til að tryggja að það hafi ávallt aðgang að nægu lausu fé til þriggja mánaða rekstrar án tekna,“ segir í heimildarbeiðni sem Bjarni Benediktsson leggur fyrir Alþingi vegna ríkisábyrgðar á lánum til Icelandair.
„Í ljósi landfræðilegrar stöðu Íslands er nauðsynlegt að tryggja traustar og samfelldar samgöngur, vöru- og fólksflutninga og af þeim sökum telst Icelandair vera kerfislega mikilvægt fyrirtæki hér á landi. Icelandair hefur tilkynnt að það stefni á hlutafjárútboð á næstu vikum og hefur félagið kynnt fyrir hagaðilum áætlun um fjárhagslega endurskipulagningu og rekstur félagsins næstu árin. Áætlun félagsins gerir m.a. ráð fyrir að félagið fái lánalínur frá viðskiptabönkum sínum, Landsbankanum hf. og Íslandsbanka hf., með ábyrgð ríkisins að hluta. Nánar tiltekið er gert ráð fyrir að ríkið veiti ábyrgð á lánalínum til þrautavara til að tryggja aðkomu hluthafa og treysta rekstrargrundvöll þessa kerfislega mikilvæga fyrirtækis og viðhalda sambandi við viðskiptavini og mikilvæga viðskiptafélaga þess. Í apríl á þessu ári kom fram af hálfu stjórnvalda að ríkið væri tilbúið að eiga viðræður um mögulega ábyrgð á lánum til félagsins. Aðkoma stjórnvalda að opinberum stuðningi við félagið hefur frá upphafi verið háð því að fullnægjandi árangur næðist í fjárhagslegri endurskipulagningu þess í samræmi við þær áætlanir sem kynntar hafa verið, þ.m.t. að afla nýs hlutafjár,“ segir þar.
„Með fyrrgreindri áætlun um fjármögnun mun félagið fjármagna að fullu vænta fjárþörf (258 milljónir Bandaríkjadala) næstu 24 mánuði með lausu fé (150 milljónir Bandaríkjadala) og væntu hlutafé nýrra hluthafa (147 milljónir Bandaríkjadala), samtals tæplega um 297 milljónir Bandaríkjadala. Félagið mun að auki hafa aðgang að rekstrarlánalínum hjá viðskiptabönkum sínum að samtals fjárhæð 52 milljónir Bandaríkjadala til að tryggja að það hafi ávallt aðgang að nægu lausu fé til þriggja mánaða rekstrar án tekna og þar fyrir utan rekstrarlánalínur til þrautavara (120 milljónir Bandaríkjadala) með 90% ábyrgð ríkisins ef rekstur félagsins mun ganga mun verr en áætlanir þess gera ráð fyrir. Gangi áætlun félagsins um fjármögnun og rekstur eftir mun aldrei reyna á lánalínur með ábyrgð ríkisins. Samkvæmt áætlun félagsins verður eiginfjárhlutfall þess að lágmarki rúmlega 23% eftir árangursríkt útboð á hlutafé (20 ma.kr.) og fer lægst í rúm 13% í lok fyrsta árshluta 2022.“