„Það að veita ríkisábyrgð er ígildi þess að gefa peninga. Í tilfelli Icelandair er ríkið tilbúið til að greiða allt að 90% af 120 m. USD-lánalínu ef Icelandair getur ekki staðið við skuldbindingar sínar. Þessi ábyrgð þýðir að Icelandair fær núna ódýrari fjármögnun en ella þar eð fjárfestar upplifa Icelandair sem tryggari fjárfestingu,“ skrifar Haukur Viðar Alfreðsson, viðskiptafræðingur og doktorsnemi í hagfræði, í Moggann í dag.
„Þetta er forskot sem einkafyrirtæki er að fá fram yfir aðra á markaðnum en áhætta sem ríkið er að taka á móti. Er hér verið að hámarka velferð almennings? Ríkið segist ekki ætla að stefna að því að eignast hlut í fyrirtækinu og ekki er að sjá að ríkið sé að nýta stöðu sína til fulls líkt og einkaaðili myndi gera og reyna að fá sem mest fyrir þær skuldbindingar sem það er að taka á hendur sér. Hvers vegna?“
Haukur Viðar skrifar: „Fljótt á litið virðist þessi ríkisábyrgð vera fyrst og fremst byggð á tilfinningu en ekki ígrunduðum rökum, útreikningum og sterkum fyrirsjáanlegum stefnum. Það virðist nokkuð augljóst að fá fyrirtæki verða skyndilega þjóðhagslega mikilvæg eða ómissandi alveg óvænt og sannarlega ekki í tilfelli Icelandair. Því sætir furðu að slíkum fyrirtækjum séu ekki settar skorður um starfsemi sína, fyrst líkur eru á að þau velti hluta eigin áhættutöku yfir á ríkið. Þá er furðulegt að ríkið sé ekki tilbúið með lista yfir slík fyrirtæki, staða þeirra sé ríkinu mjög ljós og þau áhættumetin,“ skrifar hann og bætir við:
„Það er nefnilega mjög dýrt að taka ákvarðanir í skyndi byggðar á hugboðum eða útreikningum á seinustu stundu, þá sérstaklega þegar þær ákvarðanir eru taldar í milljörðum. Það er almenningi ekki bjóðandi að ríkið viðhafi slík vinnubrögð og bjóði hættunni heim fremur en að hafa örfáa sérfræðinga í vinnu sem væru með puttann á púlsinum árið um kring. Til að fá mjög grófa útreikninga má áætla að sérfræðingur með grunnlaun upp á 800 þ.kr. kosti ríkið um 12 m.kr. á ári með launatengdum gjöldum. Jafnvel teymi af fjórum slíkum sérfræðingum sem myndu ekki vinna að neinum öðrum verkefnum myndi kosta ríkið um 50 m.kr. á ári eða 500 m.kr. á áratug. Þessi eina ríkisábyrgð á hendur Icelandair getur kostað ríkið á annan tug milljarða og það er ekki eins og þetta sé eina skiptið sem tal um ríkisábyrgð eða aðstoð fyrir einkafyrirtæki skjóti upp kollinum síðastliðin ár. Munurinn á þessum tölum er ófá Braggamál að stærð.“
Grein Hauks Viðars í Mogganum er nokkru lengri en sá hluti sem er birtur hér.