„Hér ríkir ekkert lýðræði“
Vigdís segir samtryggingu fjórflokksins koma í veg fyrir áhrif annarra flokka á þingi Sambands sveitarfélaga.
Vigdís Hauksdóttir borgarfulltrúi er ekki sátt með gang mála á þingi Sambands íslenskra sveitarfélaga. Þar verður kosið í stjórn sambandsins.
„Fráfarandi stjórn skipar valnefnd sem kemur með tillögu um næstu stjórn. Þar er staðinn vörður um fjórflokkinn með mælikvörðum sem sambandið sjálft setur sér. Það tekur ekki tillit til nýrra framboða sem er fjórði stærsti flokkurinn og vann stórsigur í síðustu kosningum,“ segir Vigdís.
„Það var gerð tillaga um það að stjórn Sambands sveitarfélaga yrði skipuð fjórflokknum með því skrýtna afbrigði að Reykjavíkurborg hefur frjálst val um þrjá fulltrúa. Það er ekki tekið tillit til nýrra framboða eða óháðra. “
„Tillaga að nýrri stjórn sambandsins endurspeglar ekki úrslit sveitarstjórnarkosninga og það er stórfurðulegt,“ segir Vigdís.
„Ég var á þingi og varð aldrei vitni að svona vinnubrögðum. Hér ríkir ekkert lýðræði eins og menn tala fjálglega um á tyllidögum.“
Tveir bæjarstjórar úr Sjálfstæðisflokki bjóða sig fram til formanns, Aldís Hafsteinsdóttir í Hveragerði og Gunnar Einarsson í Garðabæ.