Fréttir

BHM: Ríkið vanvirðir starsmenn sína

By Miðjan

May 19, 2015

Kjaramál „Sú vonarglæta sem vaknaði fyrir um viku síðan að samningaviðræður væru loksins hafnar eftir nokkra mánaða setu með samninganefnd ríkisins hjá ríkissáttasemjara varð að engu í dag. Það er deginum ljósara að enginn samningsvilji sé hjá ríkinu,“ segir Páll Halldórsson formaður samninganefndar BHM, á heimasíðu samtakanna.

Hann segir þar ríkisstjórnina augljóslega ekki tilbúna til að taka forystu við lausn deilunnar. BHM hefur ítrekað verið tilbúið að ræða ýmsar leiðir til lausnar en þrátt fyrir það hefur ríkið ekki fengist í þá vinnu af alvöru og það sýnt sig að þeir eru að bíða eftir að samið verði á almennum vinnumarkaði.  Með þessu sýnir ríkið starfsmönnum sínum vanvirðingu þar sem samningsréttur þeirra er ekki virtur.

„Stjórnvöld hafa að engu þau víðtæku áhrif sem verkfallsaðgerðir starfsmanna þeirra hafa og virða að vettugi þá grafalvarlegu stöðu sem löngu er komin upp í samfélaginu. Þessi staða er algerlega á ábyrgð ríkisins,“ segir Páll.