Ríkið tekur til sín allan arf lífeyrisþega
TR ber að lögum að skerða greiðslurnar og það er ekki við stofnunina að sakast. Það er við Alþingi að sakast.
Marinó G. Njálsson skrifaði:
Ég er búinn að skoða skýrslu Ríkisendurskoðunar um TR, þar sem m.a. er fjallað um of- eða vangreiðslur til lífeyrisþega. Hvergi í henni sagt eða gefið í skyn að leiðréttingar á greiðslum til lífeyrisþega sé vegna kerfisbundinna mistaka TR. Það er hins vegar bent á að bæði vangreiðslur og ofgreiðslur séu komnar til vegna breytinga á tekjum lífeyrisþega miðað við uppgefna tekjuáætlun.
Auðvitað verða mistök og margir hafa illa bifur á stofnuninni vegna þess að bæði virðist allt of oft vera erfitt að fá svör og hitt að stofnunin virðist hreinlega halda upplýsingum frá þeim sem til hennar leita. En ég held að hundurinn liggi annars staðar grafinn en hjá TR, þegar kemur að stærstum hluta of- og vangreiðslna.
Þar sem tekjuáætlun er bara áætlun og TR hefur almennt ekki heimild til að nálgast aðrar upplýsingar um tekjur lífeyrisþega nema þær sem lífeyrisþegar senda TR eða koma fram í skattframtölum, þá er alls ekki óeðlilegt að greiðslur sem miðað við uppgefnar tekjur í tekjuáætlun sem gefin er út áður en greiðslurnar hefjast, stemmi ekki við raunverulegar tekjur í skattframtali. Lífeyrisþegi þarf ekki annað en að hafa verið í launuðu starfi sem gaf aðra yfirvinnu en var reiknað með eða verðbólga hafi verið önnur en spáð var til þess að tekjur séu ekki í samræmi við tekjuáætlun og því komi endurútreikningur.
Fyrirkomulagið vegna greiðslna frá TR er mjög svipað því sem notað er vegna skattgreiðslna í Danmörku. Í nóvember hvert ár er skilað inn svo kölluðu forskudsopgørelse, þar sem skattgreiðendur áætla tekjur sínar næsta tekjuár. Skattgreiðslur fyrir það ár eru áætlaðar og þær sendar launagreiðanda sem sér síðan um að draga þær af í hverjum mánuði. Verði breytingar á högum skattgreiðandans, t.d. atvinnumissi eða launahækkun, þá getur hann sent inn nýtt forskudsopgørelse sem veldur því að skattgreiðslur það sem eftir er ársins eru endurreiknaðar og launagreiðandi upplýstur um breytinguna.
Í mars næsta ár á eftir, fær maður skattskýrsluna og getur gert þær breytingar sem þarf á tekjum og öðrum upplýsingum, sem óskað er eftir. Búið er að færa inn allt það sem skatturinn veit, en í mínu tilfelli þarf ég að færa inn upplýsingar um tekjur á Íslandi (m.a. þessar smávægilegu fjármagnstekjur) og fjármagnsgjöld (því þau dragast að hluta frá skattskyldum tekjum). Svo er allt endurreiknað og niðurstaðan er birt. Eingöngu þeir sem breyta engu milli forskudsopgørelse og skattskýrslunnar sem skilað er inn fá engar breytingar á sköttunum sínum. Ég hef ekki leitað upplýsinga um hve þetta eru margir, en mig grunar að það sé nánast enginn.
Að ekki sé um kerfisbundin mistök TR ræða, þýðir ekki að ekki sé hægt að bæta kerfið. Förum hins vegar í þá vinnu á réttum forsendum, þ.e. hvernig er hægt að bæta þær upplýsingar sem TR hefur til að áætla greiðslur til lífeyrisþega. Auðvelda þarf lífeyrisþegum að koma breytingum á framfæri og gera þarf endurútreikning TR eins sjálfvirkan og hægt er. Þ.e. setji lífeyrisþegi inn breytingu á áætluðum tekjum sínum, þá komi það fram í næstu greiðslu til hans, en ekki eftir að handvirk vinnsla hefur átt sér stað eftir dúk og disk hjá TR.
Síðan þarf að minna lífeyrisþega á, að þeir þurfa að skila inn upplýsingum um breyttar forsendur jafnóðum og þær gerast. Hafi einstaklingur orðið fyrir tekjumissi, sem ekki er vitað hvað vari lengi, þá er freistandi að bíða og sjá hvernig rætist úr. Það getur litið kjánalega út að senda inn nýjar upplýsingar mánaðarlega, en sé TR tilbúið að taka við nýjum upplýsingum mánaðarlega, þá er það einfaldlega það sem þarf að gera. Hafi tekjumissir orðið þó ekki sé nema í mánuð, þá þýðir það oftast að tekjur ársins verða lægri en vonast var til.
Í skýrslunni kemur fram að hæstu ofgreiðslurnar séu oftast vegna þess að lífeyrisþeganum tæmdist arfur eða hann fékk söluhagnað af íbúðarhúsnæði. Þetta eru tvö dæmi um óréttlæti í kerfinu, en ekki í starfsháttum TR. Stofnunin fylgir lögum sem skipta landsmönnum upp í tvær þjóðir. Þá sem borga venjulegan fjármagnsskatt af fjármagnstekjum umfram ákveðna upphæð og lífeyrisþega sem ofan á þennan fjármagnstekjuskatt verða fyrir skerðingu á lífeyrisgreiðslum úr almannatryggingakerfinu. TR ber að lögum að skerða greiðslurnar og það er ekki við stofnunina að sakast. Það er við Alþingi að sakast.
Öll höfum við líklega heyrt einhver dæmi um hvernig þetta óréttlæti kemur fram. Systkinum tæmdist arfur, 3 milljónir hvort. Annað er venjulegur launþegi og borgaði því venjulegar erfðafjárskatt. Hitt er lífeyrisþegi og endaði nánast á því að skulda TR allan arfinn þegar upp var staðið.
Við þurfum að breyta þessu óréttlæti og sömu reglur eiga að gilda um alla landsmenn, þegar kemur að slíkum afbrigðilegum tekjum. En við skulum ekki rugla saman óréttlátum lögum og því að leiðréttingar TR í september á hverju ári séu rangar eða vegna kerfislægra mistaka hjá stofnuninni. Þessi kerfislægu mistök eru hjá löggjafanum.
Greinin birtist á Facebooksíðu Marinós.
Fyrirsögnin er Miðjunnar.