„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að hefja undirbúning að uppsögn samkomulags við þjóðkirkjuna um kirkjujarðir og launagreiðslur presta og starfsmanna þjóðkirkjunnar frá 1997. Í því skyni verði metið hvaða lagabreytinga sé þörf og nauðsynleg lagafrumvörp lögð fram á Alþingi. Stefnt verði að því að samkomulagi þessu og öðrum samningum sem að því lúta verði endanlega slitið fyrir árslok 2020.“
Þannig hljóðar þingsályktunartillaga sem nokkrir þingmenn Pírata flytja á Alþingi. Viktor Orri Valgarðsson er fyrsti flutningsmaður.
„Á undanförnum áratugum hefur íslenskt samfélag tekið miklum breytingum, t.d. hvað varðar trúarbrögð og trúarvitund fólks. Samkvæmt skoðanakönnunum fer þeim fjölgandi sem eru hlynntir aðskilnaði ríkis og kirkju. Krafan um fullan aðskilnað ríkis og kirkju verður því sífellt háværari sem og krafan um að stuðla skuli að jafnri stöðu allra trúar- og lífsskoðunarfélaga,“ segir í greinagerð með tillögunni.
Eins þetta: „Krafan um aðskilnað felst ekki í því að gagnrýna sjálfsstjórn þjóðkirkjunnar heldur forréttindi og óeðlileg fjárútlát ríkisins til hennar. Þjóðkirkjan á fjölda félagsmanna sem getur alið önn fyrir henni.“
„Þjóðkirkjan þarf hins vegar, eftir slit samkomulagsins, að standa sjálf straum af launakostnaði presta og annarra starfsmanna kirkjunnar.“