Ríkið minnki – sveitarfélögin stækki
Spurning hvort íslensk stjórnmálamenning ráði við það, að ræða um grundvallarmál sem miklu skipta.
Gunnar Smári skrifar:
Ef markmið er lýðræði ríður á að minnka ríkisvaldið og stækka sveitarfélögin. Víða í nágrenni okkur er hlutfallið 50/50 en hér er ríkið með um 70% af tekjum hins opinbera en sveitarfélögin 30%. Til að breyta þessu þarf að stækka sveitarfélögin svo hvert þeirra ráði við 50% af verkefnunum (heilsugæsla, allir skólar að háskóla, innviðauppbygging, útdeiling kvóta o.s.frv.). Þetta er mikilvægt mál, að draga úr miðstýringu í hinu opinbera kerfi, draga úr drottnandi valdi ráðherra og ríkisstjórnar, sem glögglega hefur komið í ljós í cóvid.
En stækkun sveitarfélaga skerðir líka lýðræðið. Sveitarfélag sem áður var aðeins lítill bær og næstu sveitir verður hluti af sveitarfélagi sem teygir sig yfir heilan landshluta og áður en varir upplifir fólk að ákvarðanir um hvort sundlaugin sé opin lengur eða skemur eru teknar langt í burtu. Samhliða stækkun sveitarfélaga þarf því að tryggja að allt vald sé ekki dregið frá smærri bæjum, sveitum eða hverfum.Lausnin á þessu er annað hvort að sveitarfélögin stækki og undir þeim verði kosið til hverfis/bæjar/sveitastjórna.
Hinn kosturinn er að smærri sveitarfélögin haldi sér en yfir þeim verði sett fylki, sem sjái um þau verk sem sveitarfélögin ráða illa við og sem við viljum ekki missa í miðstýringuna hjá ríkinu.
Fyrir 20-25 árum voru þessi mál rædd, þegar ljóst var að við stóðum frammi fyrir þessum vanda sem nú er verið að leysa með stækkun sveitarfélaga. Því miður gufaði þessi umræða upp, eins og oft gerist á Íslandi; þróunin til stækkunar sveitarfélaga hófst án þess að að baki lagi skýr hugsun um framtíðina. Lausnin var til að mæta tilteknum vanda, ekki til að byggja upp betra samfélag.
Hvernig gæti svona fylki virkað á Íslandi? Höfuðborgarsvæðið gæti verið fylki en Garðabær, Mosfellsbær, Vesturbær Reykjavíkur o.s.frv. valið sínar hverfisstjórnir sem sinntu þeim verkefnum sem henta svo litlum einingum. Vestfirðir gætu verið fylki, jafnvel Vesturland með Vestfjörðum, en Ísafjörður með sína hverfisstjórn, Akranes, Snæfellsnes o.s.frv.
Lýðræði er ekki bara kostnaður heldur mikilvægasta tækið til að byggja upp gott, fjölbreytt og öflugt samfélag sem getur staðið af sér raunir. Stærðin og miðstýringin getur skilað skilvirkni á blaði en leiðir oftast til veikleika gagnvart áföllum. Fyrir utan að niðurstaðan verður samkomulag sem kannski enginn hefði kosið sem fyrsta kost. Og kostnaðurinn við lýðræðið, ofurlaun bæjarstjóra og ofþensla bæjarskrifstofa, sem oft hafa það eina markmið að halda meirihluta bæjarstjórnar við völd, er gríðarlegur í kerfinu í dag.
Ekki veit ég hvort hægt væri að byggja upp samstöðu til að leysa þennan vanda: Fráleita uppbyggingu sveitarstjórnarstigsins og veika stöðu þess gagnvart ríkinu, miðstýringu og valdauppbyggingu á einum stað í kerfinu og valdaleysi almennings um þróun nærumhverfis síns. En þetta er eitt af stóru málunum. Spurning hvort íslensk stjórnmálamenning ráði við það, að ræða um grundvallarmál sem miklu skipta.