Árið 2006 fengu fangar greiddar 335 kr. á tímann í vinnu. Það gera um 613 kr. á núvirði. Eins og fram kom í fréttum í dag fá fangar hins vegar aðeins greiddar 430 kr. á tímann. Með því að láta verðbólguna éta upp taxtann og hækka ætíð minna en sem nemur hækkun verðlags hefur dómsmálaráðherrum síðasta áratuginn tekist að klípa sem nemur 183 kr. af föngum á tímann. Áður en þið hlægið að því hvað þetta er lág upphæð, hafið í huga að þetta er 30% kjaraskerðing. Þetta er enn eitt dæmið um hvernig stjórnvöld hafa látið verðbólgu grafa undan þeim sem verr standa; hrörnandi persónuafsláttur hefur fært skattheimtu sífellt dýpra niður í fátækt, barna og vaxtabætur hafa rýrnað o.s.frv. En engin hópur hefur samt mátt þola 30% skerðingu síðan 2006.
Ef fangar eru ekki í vinnu fá þeir dagpeninga, 630 krónur. Þessi upphæð hefur verið óbreytt síðan 2006. Þá jafngiltu dagpeningarnir 1153 krónum dagsins í dag. Dómsmálaráðherrar hafa því látið dagpeninga fanga missa næstum helminginn af verðgildi sínu, náð að klípa 523 krónur af hverjum fanga á dag. Til hvers? Miðað við að á hverjum tími séu um 155 manns í fangelsi þá hefur dómsmálaráðherra náð næstum 30 milljónum króna af föngum landsins á ári með því að láta verðbólguna éta upp dagpeninga þeirra undanfarin tólf ár.
En það er margt annað athugavert við vinnu fanga. Eins og ASÍ bendir á eru fangar ekki launamenn og greiða ekki í verkalýðsfélög, þeir eru því ekki tryggðir eins og launamenn og njóta einskis af réttindum launamanna. Fangar á Kvíabryggju hafa undanfarin ár rekið fé af Kistufelli við Grundarfjörð, en sem kunnugt er það fjall hættulegt yfirferðar. Tvö banaslys hafa orðið þar á skömmum tíma. Ef fangi slasast í vinnu fyrir bændur mun hann ekki fá neinar bætur eins og hann fengi ef væri hann launamaður. Það segja mér fangar á Kvíabryggju að þótt þeir viti af hættunni láti þeir sig hafa það reka féð af fjallinu. Þeir geta neitað en sá sem neitar einu sinni gæti kannski misst af næstu vinnu og þótt launin séu lág þá verða fangar að taka allri vinnu sem þeir fá því það er erfitt að hafa ekkert nema dagpeningana.
Þessi vinna fanga eru leifar af einhverjum horfnum tíma. Það er undarlegt að heyra starfsfólk Fangelsismálastofnunar verja smánarlaun fanga með því að þetta sé löglegt. Það er hins vegar siðlaust af fangelsisyfirvöldum að leigja fanga út á 800 kr. á tímann og taka svo af því 370 kr. þóknun, eins og hver önnur starfsmannaleiga.
Í Bandaríkjunum hafa fangar myndað verkalýðsfélög og farið í verkföll til að knýa á um kjarabætur og meiri rétt. Þarlendis er útleiga á föngum sem vinnuafli big business, keyrður áfram af einkavæddum fangelsisiðnaði. Vefsíða Incarcerated Workers Organizing Committee, sem er angi af Industrial Workers of the World (Íslandsdeildin er hér á Facebook:https://www.facebook.com/iwwisland/) gefur ágætt yfirlit yfir réttindabaráttu fanga. Kannski ætti Íslandsdeild IWW að sækja reynslu til móðursamtakana og styðja íslenska fanga í að endurheimta kjararýrnun undanfarinna ára og krefjast réttinda á við annað vinnuafl.