- Advertisement -

Ríkið leggst gegn rukkun við Geysi

 Neytendur Fjármála- og efnahagsráðuneytið krefst þess fyrir Héraðsdómi Suðurlands að Landeigendafélagi Geysis ehf. verði bannað að rukka ferðamenn sem fara inn á Geysissvæðið. Jafnframt er þess krafist að lögbann sem sýslumaður setti á gjaldtöku félagsins í mars og apríl verði staðfest. Málið var tekið til dóms í gær. Ekki er gert ráð fyrir að dómsmeðferð ljúki fyrr en síðsumars.

Morgunblaðið segir í morgun að ríkið eigi goshverina á Geysissvæðinu og sé ásamt félagsmönnum Landeigendafélagsins, sem stofnað var haustið 2012, eigandi að landinu umhverfis þá. Meðeigendur ríkisins hófu gjaldtöku inn á svæðið í mars síðastliðnum í óþökk ríkisins sem í apríl fékk sett lögbann á aðgerðirnar.

Landeigendafélagið hefur ekki viljað greina frá því hve margir ferðamenn greiddu aðgangseyri í þær þrjár vikur sem gjaldtakan stóð yfir. Hver ferðamaður var krafinn um 600 krónur fyrir að fara um svæðið.

Rökin fyrir gjaldtökunni voru þau að Geysissvæðið þyldi ekki þann gríðarlega fjölda gesta sem sækja það ár hvert. Sögðu talsmenn Landeigendafélagsins að svæðið lægi undir skemmdum.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Samtök ferðaþjónustunnar voru meðal þeirra sem lýstu sig andsnúna gjaldtökunni. Talsmenn þeirra sögðu fyrirvarann allt of stuttan og vildu að Landeigendafélag Geysis tæki þátt í undirbúningi að náttúrupassanum sem hefur verið í bígerð í iðnaðarráðuneytinu.

Tilkynnt var í síðustu viku að hverasvæðið við Geysi fengi úthlutaðar fimmtán milljónir króna úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða til uppbyggingar og verndaraðgerða á ferðamannastöðum í sumar. Féð er ætlað til framkvæmda á stígum og öryggisgrindverkum.

Landeigendur í Reykjahlíð í Mývatnssveit ætluðu að rukka ferðamenn um 800 krónur fyrir að skoða Dettifoss, Leirhnjúk og hverina austan Námaskarðs, og átti gjaldtakan að hefjast 1. júní en ekkert varð af því.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: