Ríkið hirðir lífeyri öryrkja
Bjarni sagði að króna á móti krónu skerðingin sé slæm og óheppileg.
„Einmitt, og nú er öllum nema háttvirtum fjármálaráðherra ljóst að þetta er gríðarlegur baggi fyrir fátækasta fólkið, sem geldur fyrir hans valda aðgerðarleysi. Þeir öryrkjar sem eiga smá upphæðir í lífeyrissjóði njóta þess ekki en upphæðin rennur í ríkiskassann.“
Þannig skrifar Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalagsins, eftir lestur fréttarinnar hér að ofan.
Þar er vitnað til þingræðu Bjarna Benediktssonar. Þar sagði hann t.d.:
„Ég get tekið undir með háttvirtum þingmanni þegar hann segir að króna á móti krónu skerðingar séu slæmar, óheppilegar,“ sagði Bjarni.
Og bætti við:
„Það verður hins vegar að muna þegar við ræðum þá sérstöku framfærsluuppbót sem sú skerðingarregla á við um að sögulega var hún hugsuð sem framfærsluuppbót fyrir þá sem voru í verstu stöðunni. Þetta var á sínum tíma innspýting stjórnvalda sem átti að beina sérstaklega til þeirra sem voru í veikustu stöðunni. Til að hún myndi ekki dreifast til allra, líka til þeirra sem voru með atvinnutekjur eða aðra framfærslu, þurfti grimmar skerðingar og þær heita í daglegri umræðu króna á móti krónu skerðing. Ef við hefðum ekki haft krónu á móti krónu skerðingu þegar sérstaka framfærsluuppbótin var sköpuð á sínum tíma, það var löngu fyrir mína tíð í ríkisstjórn, hefðu fjármunirnir ekki nýst þeim sem voru í veikustu stöðunni. Þetta verða menn að muna.“