Alþingi
„Undanfarnar vikur hefur verið mikil umræða um fyrirhugaða ríkisvæðingu með kaupum Landsbankans á TM. Stjórnarandstöðuflokkarnir hafa farið mikinn með Samfylkinguna í broddi fylkingar og slegið einhvers konar met í aumri tilraun til þess að færa umræðuna frá kjarna málsins. Kjarni málsins er þessi: Ríkið á ekki að stíga inn á nýjan markað og sölsa undir sig fyrirtæki í tryggingastarfsemi. Stefna Sjálfstæðisflokksins er skýr í þeim efnum og skorumst við ekki undan að taka umræðuna um þennan kjarna málsins. Annað er svo umræðan um eignarhald ríkisins í fjármálafyrirtækjum en þar er stefna Sjálfstæðisflokksins einnig kýrskýr. Þá hefur sjaldan verið jafn mikilvægt og nú að selja hluti ríkisins í fyrirtækjum á fjármálamarkaði svo við gætum umbreytt þeim fjármunum til að halda áfram að byggja upp öfluga innviði samfélagsins,“ sagði Berglind Ósk Guðmundsdóttir Sjálfstæðisflokki á Alþingi.
„Þótt umræðan um þessa tilteknu ríkisvæðingu hafi komist í hámæli þessa vikuna liggur einnig fyrir að fyrr í þessum mánuði var tilkynnt um ríkisvæðingu 1700 símans. Yfirfærslan var frá Læknavaktinni, einkaaðilum sem hafa sinnt þessari þjónustu við landsmenn prýðilega, til upplýsingamiðstöðvar Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Þessi breyting fór hljótt þegar hún gerðist en þegar þetta lá í loftinu fyrir nokkru síðan var ljóst að andstaða var við ríkisvæðinguna af hálfu starfsfólks Læknavaktarinnar.
Þessi framganga hins opinbera á einkamarkaði er einmitt kjarninn í því sem sjálfstæðisstefnan gengur ekki út á. Hið opinbera á öllu fremur að rýmka til fyrir einkaaðilum þannig að þeir geti tekið að sér verkefni og stuðla að nýsköpun í opinberri þjónustu með auknu kostnaðarhagræði og bættu þjónustuframboði. Þessi framganga skýtur því skökku við og því hef ég lagt fram fyrirspurn til hæstvirts heilbrigðisráðherra um hvað liggur hér að baki. Það er alveg skýrt að hér þurfum við að vita hvers vegna ríkið þurfti að sölsa undir sig vel heppnað einkaframtak í veitingu á þjónustu,“ sagði Berglind Ósk.