Fréttir

Ríkið hefur losað sig kerfisbundið við fólk á lægri launum

By Miðjan

February 13, 2023

Ragnar Þór Pétursson, fyrrverandi formaður Kennarasambandsins, skrifaði:

Félag atvinnurekenda óskar eftir viðbrögðum við því að þeir fengu fyrirtæki til að fullyrða það að laun opinberra starfsmanna væru orðin jafn góð eða betri en á almennum markaði. Nú hef ég ekki rekist á tengil á skýrsluna en ég horfði á kynninguna á niðurstöðum hennar og sá þar myndrit.

Hér eru því viðbrögð:

Staðreyndin er sú að ef þú metur laun á opinberum og almennum markaði út frá öllum málefnalegum skýribreytum (svo sem menntun, reynslu og svo framvegis) hallar stórkostlega á opinbera starfsmenn. Nú er það engin sérstök krafa á almennan vinnumarkað að hann sé sanngjarn – það er hinsvegar krafa sem við eigum hiklaust að gera á hinn opinbera markað. Það kemur ekki til greina að sætta sig við það að opinberir vinnuveitendur viðhaldi kerfisbundnu ranglæti, sem að mestu leyti er stærsta vígi kynjamismununar í landinu.

Nú skilst mér að ráðamenn vilji (einhverjir) senda alla opinbera starfsmenn á endurmenntunarnámskeið í fordómum, mismunun og hatursáróðri. Það væri þokkaleg hræsnin að sitja slíkt námskeið hjá stærsta varðhundi mismununar í landinu – hinu opinbera.