- Advertisement -

Ríkið er mesti skattsvikarinn

Hvernig getum við tekið á skattsvikum?

Ragnar Önundarson skrifar:

„Endurvinnsla“ alls konar tíðkast mjög og þykir góð. Eftirfarandi texti er endurunninn, mig langar að halda umhugsun FB vina minna gangandi.

Ég segi að ríkið sé mesti skattsvikarinn því það ræðst ekki af alvöru gegn skattsvikum. Þar með lætur það hina heiðarlegu borga heilbrigðisþjónustu og menntun fyrir fjölskyldur skattsvikaranna. Það eru svik. Ef áætlanir fyrir nokkrum árum um að ríkið verði af allt að 100 milljarða kr. tekjum vegna skattsvika voru nærri lagi, þá eru það enn smámunir sem tekst að upplýsa um, etv. 3%. Vitað er þar með að ríkissjóður missir árlega af yfir 100 milljörðum króna vegna skattsvika. Það eru m.ö.o. ekki bara þeir sem svíkja undan skatti eru að svíkja samborgara sína, því þeir njóta alls sem ríkið tryggir þeim, á kostnað annarra. Ekki er heldur greitt í lífeyrissjóð af „svörtum“ tekjum, sem þýðir að skattsvikarar svíkja líka á efri árum, fá sína framfærslu á kostnað annarra. Með tómlæti sinu er rikið sjálft meðsekt og gríðarleg mismunun felst í þeirri háttsemi.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Hvernig getum við tekið á skattsvikum? Árum og áratugum saman hafa stjórnvöld verið úrræðalítil. Afleiðingin er uppgjöf og aðgerðaleysi. Enn verra er að aðgerðaleysið leiðir til þess að fólk finnur ekki til samstöðu og ábyrgðar með sameiginlegum sjóði landsmanna. Fer að hugsa, … „best að gera það sama fyrst aðrir komast upp með þetta“.

Vandamál má flokka í rekstrar-, skipulags- og stefnumótunarvanda. Fyrstnefndi flokkurinn er lang umfangsmestur, flestar daglegar ákvarðanir tilheyra honum. Næst koma skipulagsmál, þau eru aðeins á dagskrá öðru hvoru. Sjaldnast eru teknar stefnumótandi ákvarðanir, en þær eru fáar, teknar með allmargra ára millibili.

Sú regla gildir i öllum rekstri að ef hjakkað er í sama farinu með óleystan vanda er ekki um „rekstrarvanda“ að ræða. Þá lyfta menn sér upp um eitt þrep og skoða hvort um skipulagsvanda se að ræða, ef ekki er það stefnumótunin sem þarf að skoða. Núna þurfum við að hætta að hjakka í sama farinu og lyfta okkur upp um eitt þrep og skoða skattsvikin sem skipulagsvanda.

Mögulegt er nú orðið að finna skattsvikarana með rafrænum hætti. Hugmynd mín er þessi:

Það yrði vafasamur heiður að vera á listanum yfir hæstu greiðendur Velferðargjalds!

Rafræn framtöl gefa nýja möguleika. Ekki bara tekjur heldur líka eignir og skuldir koma nú rafrænt inn í þau. Ef mismunur eigna og skulda, þ.e. hrein eign, vex umfram það sem getur skýrst af framtöldum tekjum, að teknu tilliti til eðlilegs framfærslukostnaðar, þá eru óskýrðar og óskattlagðar tekjur að baki. Gera þarf ýmsar lagfæringar til að gera þennan mismun skattleggjanlegan. Vinna þarf í því, en látum það liggja milli hluta í bili.

Lagt er til að áfram verði reiknaður tekjuskattur- og útsvar með óbreyttum hætti, en bætt verði við nýju gjaldi, „velferðargjaldi“, sem reiknað verði út fyrir alla framteljendur en einungis lagt á fólk að því marki sem gjaldið er hærra en tekjuskattur og útsvar. Stofn til útreiknings velferðargjalds verði aukning hreinnar eignar, að viðbættum áætluðum framfærslukostnaði framteljanda og heimilisfólks hans. Þetta er þá nálgun að raunverulegum tekjum manna. Gera á framteljendum refsilaust að stíga fram og gera skattyfirvöldum grein fyrir tekjum sínum og yrði þá álagning velferðargjalds felld niður, eftir atvikum og málsástæðum.

Birta á lista árlega yfir þá sem ekki stíga fram. Það yrði vafasamur heiður að vera á listanum yfir hæstu greiðendur Velferðargjalds!

Sem fyrr sagði þarf að gera ýmsar lagfæringar til að gera þetta framkvæmanlegt, en óþarft er að láta það koma í veg fyrir að unnið sé að lausn skattsvikavandans. Það ber vott um tvöfalt siðgæði stjórnmálanna að aðhafast ekki.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: