- Advertisement -

Ríkið eigi 30 til 40 prósent í bönkunum

Fjárfestar sækjast mjög eftir slíku fé í sínum umsvifum, ekki síður en sósíalistar.

Ragnar Önundarson skrifar: Óli Björn er eini forystumaður Sjstfl. sem nennir að vinna með grundvallaratriði. Það er mikilvægt. Nú tjáir hann sig um eignarhald ríkisins á bönkum eins og það sé „rofi“, annað hvort „on“ eða „off“. Nú er „dimmerinn“ hins vegar kominn til skjalanna, okkur til þæginda.

Mér dettur í hug að ríkið eigi að halda eftir 34-40% hlut í bönkunum. Ástæðurnar sæki ég í reynslu okkar í hruninu:

1 Bankar fara með „annarra manna fé“. Fjárfestar sækjast mjög eftir slíku fé í sínum umsvifum, ekki síður en sósíalistar. Þetta þýðir að eignaraðild verður að vera MJÖG dreifð. Lífeyrissjóðir fara með almannafé og gera má undantekningu hvað þá varðar. Enginn „fjárfestir“ má eiga svo stóran hlut að hann geti tekið sparifé almennings til eigin nota á ný.

2 Umtal um aðkomu erlendra banka hefur lengi reynst orðagjálfur. Hugsanlega vill þessi þýski Aufhäuser eða þvílíkir koma okkur til „hjálpar“ á ný. Á meðan norrænir bankar þora ekki munu aðrir ekki þora. Bergen er stærri markaður en Ísland, samþjappaður á lítið svæði, þar er einn erlendur banki, sérhæfður í ,,shipping”.

3 Bankastarfsemi er að hluta til „innviðir“ sem annast ómissandi greiðslumiðlun. Þess vegna verður ríkið að grípa inn í ef illa ætlar að fara. Þess vegna má líkja bönkum við veitustofnanir. Einkavæðing slíkra er umdeilanleg.

4 Nú heyrir maður síendurtekið að bankastarfsemi sé svo áhættusöm að ríkið eigi að losa sig við hana. Ríkið situr uppi með áhættuna hvort sem er ! Ríkið kemur til bjargar með fjármunum almennings, ef áföll verða, reynslan sýnir það.

5 Peningar eru hvorki vara né „þjónusta“ í venjulegum skilningi þess orðs. Þeir eru ávísun á verðmæti af öllu tagi. Af slíku fær fólk aldrei nóg. Þess vegna er ekki mögulegt að „metta“ peningamarkað með framboði. Þess vegna þarf ALLTAF að skammta peninga. Þess vegna töluðu Ólafur Björnsson og Jónas Haralz um að ríkisfjármálum og peningamálum YRÐI að stjórna með harðri hendi! Þeir voru frjálshyggjumenn en ekki nýfrjálshyggjumenn.

6 Vegna þessa óleysanlega ójafnvægis framboðs og eftirspurnar er alltaf skömmtunarástand á lánsfjármörkuðum. Það þýðir VÖLD. Óhjákvæmilegt er að krefjast að völdum sé beitt varfærnislega. Valdajafnvægi er ein leiðin. Önnur að fela þau mönnum sem reynsla sýnir láta ekki eiginhagsmuni ráða för.

7 Mikilvægt er að skilja að bankarekstur er „fag“. Fagmennsku er þörf. Gamli bankamannaskólinn innrætti starfsfólkinu varúð. Hann var lagður niður. Í Þýskalandi hefur lengi verið krafist fagmenntunar til að fá verslunarleyfi og sama gildir um bankamenn.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: