Ríkið borgar ekki – Karitas hættir
Víst er að þessi niðurstaða mun kosta ríkið mikið. Veikasta fólkið kemur fyrr á sjúkrahúsin og greinilegt er að verið er að halda í aurinn en kasta krónunni.
Ríkið neitar að borga Karitas fyrir annað en vitjanir. Þess vegna hefur forráðafólk Karitasar ákveðið að félagið hætti starfsemi í sumarlok.
„Karitas sinnir fólki með langvinna eða lífsógnandi sjúkdóma á höfuðborgarsvæðinu og býður upp á sólarhringsþjónustu í heimahúsum sem gerir mikið veiku fólki kleift að vera heima. Karitas hefur starfað skv. samningi við Sjúkratryggingar Íslands frá árinu 1994, sem hefur lítið breyst frá upphafi, þrátt fyrir ítrekaðar óskir um endurskoðun hans,“segir í frétt Morgunblaðsins um þetta óþægilega mál.
Óskað hefur verið eftir fundi með Svandísi Svavarsdóttur vegna þessa.
Í Morgunblaðinu segir Valgerður Hjartardóttir, sem er hjúkrunar- og fjölskyldufræðingur hjá Karitas: „Við fáum einungis greitt fyrir vitjanir samkvæmt samningnum, en ekki fyrir bakvaktir eða aðra þjónustu sem við veitum.“
Núverandi ríkisstjórn virðist einstaklega fjandsöm félagsskap einsog Karitas. Sjúkraflutningar verða teknir af Rauða krossinum, sem hefur sinnt þeim í áratugi með mesta sóma.
Best að vitna aftur í frétt Morgunblaðsins: „Karitas sinnir árlega 200 til 300 einstaklingum ásamt aðstandendum og er í nánu samstarfi við Landspítalann og sérfræðinga í heilbrigðis- og velferðarkerfinu. Bakvaktarhluti þjónustunnar hafi þyngst mikið því vaxandi þörf sé fyrir samskipti og stuðning í gegnum síma og tölvur með breyttu samfélagi. Samningurinn sé barn síns tíma, áherslur í þjónustunni séu breyttar og ekki hafi verið brugðist við því með endurskoðun hans. Karitas geti því ekki lengur boðið hjúkrunarfræðingum sínum samkeppnishæf starfsskilyrði og kjör.“
Víst er að þessi niðurstaða mun kosta ríkið mikið. Veikasta fólkið kemur fyrr á sjúkrahúsin og greinilegt er að verið er að halda í aurinn en kasta krónunni.