Björn Leví gefst ekki upp og heldur áfram að gera það sem hann getur til að upplýsa um hvernig þingmenn hafa nýtt sér sjóði Alþingis til að borga eigin kosningabaráttu. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa fremst allra í tilraun til að stöðva Björn Leví í viðleitni hans. Björn Leví nýtir sér Moggann, sem svo oft áður, og skrifar í blað dagsins.
„Er eðlilegt að Alþingi borgi fyrir kostnað þingmanna vegna kosningabaráttu? Ég tel að svarið við þeirri spurningu sé þvert nei, og ástæðurnar fyrir því eru fjölmargar. Til dæmis er aðstöðumunur á milli þingmanna og annarra frambjóðenda, þar sem þingmenn geta ákveðið að greiða sjálfum sér slíkar greiðslur. Aðrir frambjóðendur þurfa að greiða framboðskostnað úr eigin vasa. Enginn vafi er á því að þingmenn hafa fengið ferðakostnað vegna kosningabaráttu endurgreiddan. Til eru sönnunargögn um það, til dæmis myndir af ráðherrabílum á kosningafundi og játning í sjónvarpsviðtali.“
Björn Leví bendir á sérstöðu þingmanna og aðgengi þeirra að sjóðum þingsins: „Fyrir liggur að greiðslur til þingmanna hafa ekki verið rannsakaðar; þar var treyst á heiðarleika þingmanna að greina satt og rétt frá. Þegar það kemur upp að eitthvað virðist hafa brugðist með heiðarleikann verður einfaldlega að fara yfir allar endurgreiðslukröfurnar, eins og átti hvort eð er að gera jafnóðum, og ganga úr skugga um hvað er rétt og hvað er rangt. Tilefnið liggur fyrir. Ekki bara vegna þess hversu mikill peningur þetta er heldur líka að kostnaður eykst í kringum kosningar og fyrir liggur játning þingmanns um að hafa þegið endurgreiðslu vegna kosningabaráttu. Í játningunni liggur fyrir að viðkomandi þingmaður taldi sig vera að fara eftir einhverjum reglum. Þær reglur finnast hins vegar hvergi. Því má telja líklegt að fleiri þingmenn hafi einnig verið að fara eftir þeim sérreglum.“