Óli Björn Kárason skrifar langa grein um vonbrigði hans í starfi þingmanns. Síðasti þingvetur var þingmanninum sýnilega erfiður. Mogginn birti grein Óla Björns.
Hann telur upp nokkur mál, þar sem hann er ósáttur við hvernig þau þróuðust. Hann játar sig fullkomlega sigraðan þegar kemur að heilbrigðismálum. Þar hafi Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra yfirhöndina.
„Á hverju einasta ári hafa framlög ríkissjóðs til heilbrigðiskerfisins verið aukin en engu að síður nær það ekki að uppfylla skyldur sínar við okkur öll sem erum sjúkratryggð. Verst er að mér hefur mistekist að koma því til leiðar að fjármunir séu nýttir með eins hagkvæmum hætti og kostur er. Ríkisrekstrarsinnar hafa haft yfirhöndina. Afleiðingin er verri þjónusta og dýrari. Þannig má lengi telja.“
Nokkuð þungur dómur í garð ráðherrans. Sífellt meiri peningar en samt fjarri næg þjónusta. Eflaust verður þessu svarað.
Sjálfstæðismenn vilja ólmir veikja eftirlitsstofnanir sem mest þeir mega.
„Mér og félögum mínum hefur orðið lítið ágengt í að skera upp kerfið. Eftirlitskerfið lifir góðu lífi og þjónar að því er virðist á stundum fremur sjálfu sér en þeim sem því er ætlað – neytendum og fyrirtækjum,“ skrifar Óli Björn svo dæsið nánast heyrist í gegnum skrifin.
Svo eitt klassískt mál vonbrigða:
„Einkareknir fjölmiðlar berjast flestir í bökkum en á sama tíma blómstrar ríkisrekinn fjölmiðill. Og mér hefur lítið sem ekkert orðið ágengt í áralangri baráttunni gegn opinberum hlutafélögum sem eru nær ósnertanleg fyrirbæri sem leggja til atlögu við einkaframtakið þegar og ef það hentar.“
Grein Óla Björns er til muna lengri.