Frá því að vefsvæði þar sem almenningur getur tjáð vilja sinn til líffæragjafar var opnað í október 2014 hafa 8573 tekið afstöðu til líffæragjafar. Sjötíu prósent þeirra eru konur. Nærri allir sem hafa skráð sig vilja gefa líffæri sín við andlát.
Við skráningu á vefnum getur fólk valið einn af eftirfarandi valkostum: Líffæragjöf sem nær til allra líffæra, líffæragjöf sem takmarkast við ákveðin líffæri og að heimila ekki líffæragjöf.
Af þeim sem taka afstöðu vilja um 99% gefa líffæri við andlát. Líklegt er að þeir sem hafa jákvæða afstöðu til líffæragjafar skrái frekar vilja sinn í rafrænan grunn. Athygli vekur að tæplega 70% þeirra sem hafa tekið afstöðu til líffæragjafar eru konur. Segir á vef Landlæknis að skýringin á kynjamun kunni að vera sú staðreynd að konur leiti mun meira en karlar inn á vefi sem tengjast heilsu. Vitað sé að ekki sé teljandi munur á afstöðu kynjanna til líffæragjafar. Því megi búast við að þessi munur felist að einhverju leyti í því sem nefnt er hér að framan.
Fjölmennasti hópurinn sem hefur tekið afstöðu til líffæragjafar er fólk á aldrinum 20–50 ára.