Reynslulausir ráðherrar
Styrmir Gunnarsson skrifar að venju í Moggga morgundagsins. Styrmir hefur áhyggjur af stöðunni á vinnumarkaði.
„Verkalýðshreyfingin mun setja fram kröfur, sem taka mið af úrskurðum kjararáðs um launahækkanir æðstu embættismanna, þingmanna og ráðherra fyrir tveimur árum og stjórna einstakra ríkisfyrirtækja og stofnana um launahækkanir æðstu stjórnenda þeirra svo og af launahækkunum æðstu stjórnenda stórra einkafyrirtækja,“ skrifar hann.
Styrmir heldur áfram: „Hún mun fylgja þessum kröfum fram með víðtækum verkfallsaðgerðum, sennilega ekki allsherjarverkföllum heldur skæruverkföllum, sem stöðva alla starfsemi Keflavíkurflugvallar í einhverja daga, stöðva uppskipun á útflutningsafurðum og lama þannig kjarnastarfsemi í atvinnulífinu og með öðrum áþekkum hætti. Eftir nokkurra mánaða átök af þessu tagi, sem munu valda gífurlegu uppnámi í samfélaginu verða viðsemjendur verkalýðshreyfingarinnar knúnir til samninga, sem koma verðbólgunni á enn meira flug og valda því að lánaskuldbindingar fjölskyldna og fyrirtækja verða óbærilegar.“
Styrmir lítur til baka í grein sinni: „Það sér það hver maður að það er ekkert vit í að stefna samfélaginu út í svona átök. Þau munu jafnast á við það, þegar verkfallsverðir á sjötta áratug síðustu aldar tóku sér stöðu í Ártúnsbrekkum, stöðvuðu flutningabíla og helltu niður mjólk úr mjólkurbrúsum.“
Að lokum metur Styrmir stöðu núverandi ríkisstjórna og hvort hún geti tekist á við komandi verkefn: „Það er auðvitað hugsanlegt að kynslóðin, sem nú stjórnar landinu geti ekki skilið þessa stöðu, af því að hún hafi ekki upplifað hana af eigin raun. Sú kynslóð var ýmist að ljúka stúdentsprófi, þegar þjóðarsáttarsamningarnir voru gerðir eða var með hugann við annað á enn yngri stigum skólakerfisins.
En hún getur þó gert eitt: Hún getur kynnt sér þessa sögu og um leið og hún gerir það hlýtur hún að átta sig á því að leiðin til þess að koma í veg fyrir þau ósköp, sem geta verið framundan er ekki að senda verkalýðshreyfingunni tóninn úr stjórnarráðinu.“
Fyrirsögnin er Miðjunnar.