- Advertisement -

Reynir enn að rjúfa þögnina um 57 milljarða viðskipti

Vill fá að vita hverjum Íbúðalánasjóur seldi íbúðirnar.

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, hefur árangurslaust spurt félagsmálaráðherra um hverjir kaupendur voru að íbúðum sem Íbúðalánasjóður seldi.

Nú spyr Þorsteinn Sigríði Á. Andersen:

„Hverjir voru skráðir kaupendur á þinglýstum afsölum vegna fullnustueigna Íbúðalánasjóðs, þar sem Íbúðalánasjóður er afsalsgjafi, á árunum 2009 til og með 2018? Óskað er eftir yfirliti þar sem komi fram nafn afsalshafa, einstaklings eða fyrirtækis, heiti fasteignar og fasteignanúmer ásamt kaupverði í hverju tilviki.“

Miðjan hefur áður fjallað um þetta mál. Fyrir nánast einum mánuði mátti lesa þetta miðjan.is:

„Það er að verða ár síðan ég lagði fram fyrirspurn til þáverandi félags- og jafnréttismálaráðherra um sölu á fullnustueignum Íbúðalánasjóðs síðastliðin tíu ár. Það barst hlutasvar í maí, þrem mánuðum seinna, þar sem sagði að 3.600 íbúðir hefðu verið seldar á 57 milljarða kr., en þess jafnframt getið að ekki væri hægt að birta nafnalista þeirra sem keypt hefðu vegna persónuverndarsjónarmiða,“ sagði Þorsteinn Sæmundsson Miðflokki.

„Sá sem hér stendur hafði samband við Persónuvernd sem setti sig ekki upp á móti því að þessi listi yrði birtur. Ráðherra hófst handa við að fá húskarla sína í lið með sér til að fá þóknanlegra svar út úr Persónuvernd. Hann svaraði loks í ágúst/september og sendi svar hingað og seldi Alþingi sjálfdæmi um það hvort birta ætti viðkomandi upplýsingar eða ekki. Nú er það þannig að Alþingi er ekki ritskoðunar- eða ritstjórnarskrifstofur fyrir ráðherra, þannig að Alþingi sendi að sjálfsögðu þetta erindi til baka og krafist alvörusvars,“ sagði Þorsteinn.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: