„Reykjavíkurborg er grútskítug og mikilvægt er að auka þrifatíðni verulega. Tekið er undir tillögu um aukin gatnaþrif í Reykjavík,“ Sagði Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir á nýjasta borgarstjórnarfundi.
„Götur sem eru þaktar fínum sandi og gúmmíögnum eru óholl blanda. Stefna ætti að því að þvo götur með vatni eins oft og unnt er eða þegar veðurfar leyfir. Sú lausn er alla jafna betri en að rykbinda með magnesíum klóríði,“ sagði Kolbrún.
„Hvert sem borgarfulltrúi Flokks fólksins fer um borgina er kvartað yfir skítugri borg. Hér þarf að gera miklu betur. Flokkur fólksins hefur einnig áður talað um hvað veggjakrot er áberandi í miðborginni. Gera þarf átak í að hreinsa veggjakrot af eignum sem borgin á og ber ábyrgð á. Sagt er að virkt eftirlit sé í gangi en fulltrúa Flokks fólksins þykir það ósennilegt. Fleirum þykir það ekki trúverðugt því stöðugt berast ábendingar um mikið veggjakrot. Kostnaður borgarinnar vegna veggjakrots var um 13,5 m.kr. árið 2022. Ekki er vitað um kostnað á síðasta ári 2023 en vert er að kalla eftir þeim upplýsingum. Eins má spyrja hvort það komi ekki til greina að hafa háar sektir við veggjakroti. Kostnaður við að þrífa veggjakrot er verulegur og stundum illgerlegt er að þrífa.“