„Ein mynd um ógöngurnar er að meirihlutinn í Reykjavík er kominn í slag við Öryrkjabandalagið og Bókabúð Máls og menningar.“ Það er borgarstjórinn fyrrverandi, Davíð Oddsson, sem þetta skrifar. Tilefnin fullyrðinganna eru strætóar, sem eru eitur í beinum Davíðs, og svo skipulagið í miðbænum.
„Miðbær borgar má sín einskis ef engir fást í það hlutverk að gæða starfsemi hans lífi svo að öflugur miðbær fái þrifist,“ skrifar DO.
Þetta er einnig að finna í Staksteinum dagsins: „Borgaryfirvöld eru illa haldin af andúð og hatri á þörfustu þjónustutækjum þeirra sem í borginni búa. Gríðarlegum fjármunum hefur verið varið til að byggja upp kerfi strætisvagna og iðulega sett og auglýst háreist markmið. En aldrei tekst þó að fá þennan þátt til að anna meira en 4% af flutningsþörfinni! Og þá eru viðbrögðin þau að reyna að þvinga borgarbúa nauðuga í vagnana með því að gera borgina illfæra fyrir aðra umferð.“